Fimmtudagur 16. júlí 2009

197. tbl. 13. árg.

Í gær gerði Morgunblaðið tveimur þingmönnum Sjálfstæðisflokks, þeim Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varaformanni flokksins og Ragnheiði Ríkarðsdóttur fyrrverandi varaformanni Bandalags jafnaðarmanna, þann óleik að hvetja þær, öðrum sjálfstæðisþingmönnum fremur, til að fara gegn samþykktum ótal landsfunda Sjálfstæðisflokksins í mikilvægasta deilumáli íslenskra stjórnmála, og greiða atkvæði með afnámi íslensks fullveldis og inngöngubeiðni landsins í Evrópusambandið. Í 13 mánuði, af 95 ára sögu þessa blaðs, hefur fullveldi Íslands verið því mikill þyrnir í augum. Hljóta þær Þorgerður og Ragnheiður báðar að vera blaðinu þakklátar fyrir að gefa lesendum sínum til kynna að þær séu líklegri en aðrir til slíkra óheilinda. Er raunar alveg magnað að svo stæk sé Evrópusambandsþráhyggja þessa blaðs orðin, að það telji tilvinnandi að þessar tvær konur eyðileggi stjórnmálaferil sinn fyrir hana.

Raunar eru engar líkur á að þessar konur fari að heilræðum Morgunblaðsins. Sérstaklega er fráleitt að Morgunblaðinu verði að ósk sinni varðandi Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, enda hefði hún vart leitað kjörs sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans í vor, nema af því að hún hefði stutt þá Evrópustefnu sem samþykkt hafði verið á fundinum áður en varaformannskjörið fór fram – og fól ekki í sér neina efnisbreytingu frá margítrekaðri stefnu fyrri landsfunda. Hún gæti vart setið sem varaformaður, ef hún færi að ráðum Morgunblaðsins og gengi gegn margra ára margítrekaðri stefnu flokksins í þessu grundvallarmáli. Hún hefði aldrei tekið að sér varaformennsku með hina sígildu Evrópustefnu hans nýáréttaða, nema vegna þess að hún hygðist fylgja henni áfram af fullum heilindum. Það er virkilega illa gert af Morgunblaðinu að ætla Þorgerði Katrínu slík óheilindi.

Það er vitað að Morgunblaðið lifir og hrærist í þeim draumi að Ísland renni inn í hið væntanlega evrópska stórríki, enda var núverandi ritstjóri þess einnig fyrsti formaður Evrópusamtakanna, og beitir hann blaðinu miskunnarlaust í þágu þess draums síns, með fullu samþykki eigenda blaðsins. En því verður samt ekki trúað að blaðið vilji Evrópusambandið svo ákaft að það telji til þess vinnandi að gera stjórnmálaferil þeirra Þorgerðar og Ragnheiðar að engu.

K astljós Ríkissjónvarpsins kom til baka úr sumarfríi og fór auðvitað beint í Evrópumálin. Þórhallur Gunnarsson spurði sjálfa Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur í gær: „En segðu mér varðandi Borgarahreyfinguna, af því að það kom á óvart þetta útspil í dag, að þrír þeirra hefðu ákveðið að styðja ekki þessa þingsályktun, en er einhver von eh eða er einhver möguleiki á því öllu heldur að það breytist?“

Já, um að gera að missa ekki vonina, og með samstilltu átaki á „fréttastofunni“ má líka auka vonirnar.

E ftir að fréttist af því að allir þingmenn Borgarahreyfingarinnar nema einn hygðust greiða því atkvæði, að ákvörðun um inngöngubeiðni í Evrópusambandið yrði borin undir þjóðina, fór Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir strax úr fréttamannsgallanum í búning bardagamannsins. Tók hún Birgittu Jónsdóttur strax í þriðjugráðuyfirheyrslu, sakaði hana um að „hóta ríkisstjórninni“, og virtist þykja það mjög ámælisvert af stjórnarandstöðuflokki, sakaði Birgittu um hrossakaup og spurði hvernig þau gætu samrýmst lýðræðislegum hugsunarhætti. Spurði meira að segja hvort kjósendur Borgarahreyfingarinnar hefðu ekki einmitt kosið þann flokk… vegna þess að hann vildi ganga í Evrópusambandið.

Ekki fannst fréttamanninum hins vegar ástæða til að spyrja fjórða þingmann Borgarahreyfingarinnar hvernig það gæti samrýmst megintilgangi flokksins að greiða beinlínis atkvæði gegn því að ein allra mikilvægasta ákvörðun alþingis í lýðveldissögunni yrði borin undir þjóðina.

Það er algerlega magnað að geta látið eins og menn telji þá þingmenn Borgarahreyfingarinnar, sem vilja þjóðaratkvæði, standa fjær tilgangi flokksins og vilja flokksmanna, en þann sem vill ekki þjóðaratkvæði. Var Borgarahreyfingin ekki beinlínis stofnuð til þess að auka völd og áhrif þjóðarinnar á kostnað atvinnustjórnmálamanna? Var ekki einu sinni hrópað: „Þjóðin á þing!“?

En nei, Þráinn Bertelsson, sem vill ekki þjóðaratkvæði, er sýndur í ræðustóli og fær þar birtan eftir sig ræðustúf. Birgitta Jónsdóttir er dregin undir vegg og sökuð um að „hóta ríkisstjórninni“.

ÍÍ gær sagði Vefþjóðviljinn frá því hvernig Ríkisútvarpið afgreiddi á tuttuguogfjórum sekúndum þau tíðindi að fjölmargir forystumenn vinstrigrænna í kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar, hefðu skrifað opið bréf og birt þjóðinni, þar sem hann var sagður hvorki meira né minna en ómerkingur. Undir bréfið rituðu fjölmargir frambjóðendur vinstrigrænna í kjördæminu við alþingiskosningarnar fyrir tveimur og hálfum mánuði, bæjarfulltrúi og oddviti flokksins í langstærsta sveitarfélagi kjördæmisins og kjörnir trúnaðarmenn flokksins í kjördæminu. Skemmst er frá því að segja að svokölluð fréttastofa ríkisins hefur ekkert meira minnst á málið, Spegillinn taldi ekki þörf á einni af sínum langlokuumfjöllunum, og málinu greinilega lokið af hálfu „fréttastofunnar“. Tuttuguogfjórar sekúndurnar verða greinilega allt og sumt.

Ímyndi menn sér nú að annar flokkur hefði átt í hlut. Sex frambjóðendur sem sátu með formanni hans á framboðslista fyrir aðeins tveimur og hálfum mánuði, kjörnir trúnaðarmenn og oddviti flokksins í stærsta sveitarfélagi kjördæmisins, hefðu bréflega lýst því yfir að formaður flokksins væri ómerkingur. Er einhver sem getur ímyndað sér að „fréttastofa“ ríkisins léti tuttuguogfjórar sekúndur duga og málið væri þá útrætt?

Og álitsgjafarnir, sem margir hverjir eru óþreytandi að vekja athygli á bréfum og greinum sem þeir sjálfir eru ánægðir með, hefur einhver þeirra talið bréf þeirra vinstrigrænu um Steingrím J. Sigfússon eiga erindi við nokkurn mann?

Og ekki taldi Kastljósið ástæðu til að fá nokkurn bréfritara í þáttinn í gær. Þar var hins vegar Benedikt Jóhannesson og taldi hann rétt að ganga í Evrópusambandið strax.

S pegillinn, hinn magnaði þáttur fréttastofu Ríkisútvarpsins, fjallaði í gær um Evrópumálin og kom ekki á óvart. Til að umfjöllunin yrði nú fræðandi og hlutlaus var leitað til eins viðmælanda, hlutlauss aðila, sem svo var kynntur: „En mál dagsins í dag hlýtur að vera Evrópusambandið og Gunnar Hólmsteinn Ársælsson er stjórnmálafræðingur að mennt og stjórnarmaður í Evrópusamtökunum en það eru samtök sem hafa þann tilgang að stuðla að málefnalegum umræðum um Evrópumál. Hann er hingað kominn…“