Föstudagur 17. júlí 2009

198. tbl. 13. árg.
La France a perdu une bataille, mais la France n’a pas perdu la guerre.
– Charles De Gaulle, í Ávarpi til allra Frakka, 18. júní 1940

V itlausasta ákvörðun í síðari tíma stjórnmálasögu, ákvörðun þáverandi forystu og þingflokks Sjálfstæðisflokksins að mynda að nauðsynjalausu ríkisstjórn með Samfylkingunni, heldur áfram að skila landsmönnum ófögnuði. Í gær var það sérstök samþykkt þess efnis, að það alþingi, sem tókst með langri baráttu að fá aftur hingað heim, óskaði nú eftir því að fá að afhenda erlendu ríkjabandalagi fullveldi Íslands.

Á dögunum stakk Pétur Blöndal upp á því við Ragnheiði Ríkharðsdóttur að hún fyndi sér annan stjórnmálaflokk. Sumir hafa eflaust haldið að það gerði hann vegna þess að honum hafi þótt málflutningur hennar eiga sér lítinn samhljóm með stefnu þess flokks sem hún er í að þessu sinni. Sennilegra er þó að hér hafi talað stærðfræðingurinn í Pétri, sem hafi einfaldlega séð að kominn væri tími á flokkaskipti hjá Ragnheiði. Hún hóf stjórnmálastarf í Alþýðuflokknum, fór þaðan í Bandalag jafnaðarmanna og varð varaformaður þess flokks, en hefur undanfarin ár verið stödd í Sjálfstæðisflokknum og tekið að sér bæjarstjórastarf og þingmennsku á hans vegum. Nú kann hins vegar að vera kominn tími á fjórða flokkinn hjá Ragnheiði og gæti hún þar með orðið fyrsti íslenski stjórnmálamaðurinn til að starfa eftir fjórflokkakerfi.

S vandís Svavarsdóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu í gær og fór með langa þulu um að það væri „sannfæring“ sín að Evrópusambandið hefði ótal og síversnandi galla, og virtist henni þykja það sem hið allra versta bandalag. Romsunni lauk á því að hún greiddi því atkvæði að alþingi Íslendinga tilkynnti um heim allan að það óskaði eftir því að Ísland gengi í þetta bandalag.

Einhvern tíma kemur að því að menn skilja, að samþykkt alþingis í gær er nákvæmlega það. Yfirlýsing um að alþingi Íslands óski eftir því að Ísland renni inn í Evrópusambandið. Það er ekkert til sem heitir að „sækja um til að sjá hvað er í boði“.

R íkisútvarpið sagði stolt frá því í gærkvöldi að fjölmiðlar víða um heim hefðu greint frá því að Ísland hefði sent inngöngubeiðni í Evrópusambandið. Ríkisútvarpið tók ekki fram, hversu margir fjölmiðlanna hefðu orðað það svo að Ísland hefði ákveðið að fara í könnunarviðræður, bara til að sjá hvað væri í boði, en hefði í raun enga ákvörðun tekið um inngöngu.

Enda er það einungis í íslenskum fjölmiðlum og þingræðum vinstrigrænna sem menn láta eins og slíkar „umsóknir“ séu til.

A f sextán þingmönnum Sjálfstæðisflokksins voru aðeins tveir sem í gær stóðu ekki með fullvalda og sjálfstæðu Íslandi. Það var kominn tími til að loksins færi eitthvað 14-2 fyrir Íslandi.

Þ ó trúverðugleiki vinstrigrænna sem flokks hafi gufað upp síðustu daga, þá tókst nokkrum þingmönnum hans með afgerandi hætti í gær, að sýna félögum sínum og öðrum að það var í raun hverjum og einum þingmanni í sjálfsvald sett hvort hann glataði eigin trúverðugleika, Steingrími J. Sigfússyni til samlætis. Sjálfsagt mál er að nefna hér nöfn Ásmundar Einars Daðasonar, Atla Gíslasonar, Jóns Bjarnasonar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og Þuríðar Backman þeim til sóma.

Hinu er ekki að neita, að Þuríður Backman átti undarlegan leik í gær. Eftir að hafa haldið stutta tölu um það hversu óskaplega andstæð hún væri inngöngu í Evrópusambandið, bætti hún því við að svo mikill andstæðingur væri hún, að hún myndi greiða atkvæði gegn öllum tillögum dagsins – og þar með þeirri sem kvað á um að ekki yrði lögð fram inngöngubeiðni nema slíkt yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef Þuríður hefði ekki þarna greitt atkvæði með Steingrími J. og félögum, heldur með öðrum andstæðingum Evrópusambandsinngöngu, hefði þjóðaratkvæðagreiðslutillagan orðið ofan á. Það vakna því óþægilegar grunsemdir um að andstöðuatkvæði hennar við inngöngutillöguna sjálfa, í þeirri atkvæðagreiðslu þar sem eitt atkvæði til eða frá, kunni að hafa verið greitt í tilefni af gríðarlegri óánægju flokksmanna í norðausturkjördæmi, sem forysta vinstrigrænna veit vel af, þó fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi ekki talið hana mjög frásagnarverða.

En þrátt fyrir þessa framgöngu Þuríðar þegar þjóðaratkvæðagreiðslutillagan var afgreidd, sem augljóslega var gerð til þess að Steingrímur J. gæti greitt Samfylkingunni uppsett verð, þá á hún skilið sinn hluta af hrósi til þeirra fimm vinstrigrænu þingmanna, sem ekki fóru naktir heim af þingfundi í gær. Hinir félagar hennar fjórir studdu hins vegar einnig tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu áður en inngöngubeiðni yrði send.

En að þessu sögðu, þá verður að segja eitt við þessa fimm þingmenn vinstrigrænna: „Sú niðurstaða sem varð í gær, alþingi til minnkunar, hefði aldrei orðið ef ekki hefði verið mynduð sú ríkisstjórn sem nú situr. Að henni standið þið öll, og án ykkar sæti hún ekki. Efalaust mun hún standa fyrir einhverjum innanlandsmálum sem ykkur líkar, og í þeim atriðum vera nær ykkar vilja en ýmsar aðrar ríkisstjórnir hefðu orðið. En finnst ykkur í raun og veru að þau atriði, með fullri virðingu fyrir þeim, séu veigameiri en andstaða við óafturkræft afsal á fullveldi Íslands? Þið stóðuð ykkur vel í dag, en munið að án ykkar hefði niðurstaða dagsins samt aldrei orðið.“

F orsætisráðherra Svía sagðist í dag fagna inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið og sagði að hún myndi fara í „hefðbundið ferli“. Enginn fréttamaður sá ástæðu til að rifja upp allar kenningarnar sem settar voru fram í síðasta mánuði um að það skipti verulegu máli að senda inngöngubeiðnina meðan Svíar væru í forsæti Evrópusambandsins, því þá fengi Ísland flýtimeðferð. Jóhanna Vigdís fer í það eftir helgina.

Æ allir þessir velviljuðu kjánar sem héldu að Vinstrigrænir væri öruggi kosturinn í Evrópumálunum.

O g hvað á það eiginlega að þýða að sitja hjá um tillögu um inngöngubeiðni í Evrópusambandið? Í slíkri atkvæðagreiðslu kemur hjáseta ekki til greina. Þeir sem ekki geta greitt atkvæði um slíka tillögu eiga ekki að sitja á alþingi.

E ins og nefnt var í gær brugðust starfsmenn fréttastofu Ríkisútvarpsins ókvæða við þegar allir þingmenn Borgarahreyfingarinnar nema einn lýstu því yfir að þeir myndu greiða atkvæði með því að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um hvort Ísland skyldi óska eftir inngöngu í Evrópusambandið. „Mikil spenna hljóp í málið í dag þegar þrír af fjórum þingmönnum Borgarahreyfingarinnar greindu frá því að þeir myndu greiða atkvæði gegn tillögunni, þvert á drengskaparloforð sem þeir höfðu gefið stjórnarflokkunum um að þeir myndu styðja hana“, þuldu fréttamenn yfir áheyrendum.

Það merkilega var nefnilega, að þegar upp komst að þingmenn Borgarahreyfingarinnar höfðu í vor gert handsalað leynisamkomulag við ríkisstjórnina um að greiða atkvæði með væntanlegri Evrópusambandstillögu Össurar Skarphéðinssonar, þá töldu fréttamenn það eina markverða við tíðindin vera það að þingmennirnir færu gegn samkomulaginu – sem fréttamenn kölluðu iðulega drengskaparloforð. Engum fréttamanni fannst neitt fréttnæmt við að slíkt leynisamkomulag hefði verið gert, hvað þá af Borgarahreyfingunni sem bauð sig víst fram með það að markmiði að allt yrði „uppi á borðum“, ekkert yrði „í skúmaskotum“ og stjórnvöldum sýnt strangt aðhald.

En hvernig halda menn að fréttamenn hefðu látið, ef þeir hefðu frétt að Borgarahreyfingin hefði samið við Sjálfstæðisflokkinn um að greiða atkvæði gegn tillögunni, í staðinn fyrir nefndarsæti á sumarþingi? Ætli það hefði kallað á fréttir og stríðsglæpayfirheyrslur eins og Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir tók Birgittu Jónsdóttur í, þegar Jóhanna Vigdís frétti að Birgitta myndi styðja þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngutillöguna?

ÞÞ egar ríkisstjórnin var mynduð voru höfð uppi mikil orð um það, að ekki hefði verið samið um annað en að utanríkisráðherra myndi leggja fyrir alþingi þingsályktunartillögu um inngöngu í Evrópusambandið, en þegar kæmi að afgreiðslu hennar væru báðir flokkar og allir þingmenn þeirra frjálsir. Þetta væri sko til marks um aukið þingræði. Fréttamenn þuldu þetta athugasemdalaust.

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir hótaði stjórnarslitum ef vinstrigrænir hlýddu ekki, eins og hún gerði opinberlega á dögunum, þá rifjaði nákvæmlega enginn fréttamaður upp hvernig talað hafði verið opinberlega eftir stjórnarmyndunina.

D agurinn í gær var ekki einn af þeim betri í Íslandssögunni. Það alþingi, sem eitt sinn var einstæð samkoma frjálsra Íslendinga, missti síðan völd sín til erlends konungs, ekki síst fyrir óþreytandi baráttu valdamesta innlenda manns þess tíma, mátti svo þola niðurlægingu um alda skeið þar til aftur tókst að reisa það til vegs, virðingar og loks fullra valda á Íslandi, samþykkti ótilneytt í gær að óska eftir því, að landsmönnum forspurðum, að Ísland yrði limað inn í erlent ríkjabandalag og að erlendar reglur yrðu á ný æðst lög á Íslandi. Í gær tapaði Ísland orrustu. En Ísland hefur ekki tapað stríðinu. Nú væntir það þess að hver maður geri skyldu sína.

Allur kostnaður við útgáfu Vefþjóðviljans og kynningu á henni er fjármagnaður af frjálsum framlögum lesenda blaðsins. Lesendur geta lagt því lið, hvort sem er með einni greiðslu eða fastri mánaðarlegri um greiðslukort, í gegnum hlekk hér vinstra megin á síðunni. Útgjöld og hlekkir eru jafnan vinstra megin.