Miðvikudagur 15. júlí 2009

196. tbl. 13. árg.

V instrigrænir loga nú stafna á milli vegna þeirrar ákvörðunar forystu flokksins að knýja fram helsta baráttumál krata, í fullkominni andstöðu við meginþorra flokksmanna. Innan úr alþingishúsinu heyrist að fleiri og fleiri þingmönnum flokksins líði verr og verr yfir þessu furðuverki og svo rammt kveður að reiði margra flokksmanna að forystumenn flokksins í kjördæmi formannsins, hafa birt til hans opið bréf þar sem hann er sagður hvorki meira né minna en „ómerkingur“. Undir bréfið rita fjölmargir frambjóðendur flokksins við nýliðarnar alþingiskosningar, oddviti flokksins á Akureyri og trúnaðarmenn víða úr kjördæminu.

Ekki er nokkur vafi á að forysta vinstrigrænna hefur ekki aðeins stórspillt trúverðugleika sínum til langframa með þessu gönuhlaupi sínu, heldur myndi áframhaldandi umræða um Evrópusambandstillögu Össurar Skarphéðinssonar, sem Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson krefjast nú að aðrir þingmenn flokksins styðji, nær ganga frá flokknum um land allt.

Og hvað gera þá forystumenn þingflokka stjórnarandstöðunnar? Jú, auðvitað hlaupa þeir til og semja við ríkisstjórnina um að umræðu um tillöguna ljúki skyndilega í dag, málið verði tekið af dagskrá og vinstrigrænum verði hlíft við frekari leiðindum. Afleiðingin verður sú að Össuri Skarphéðinssyni verður að þeirri æviósk sinni, að fá að leggja íslenskt fullveldi undir ókosna erlenda skriffinna.

Þeir, sem héldu að síðasta þingflokki Sjálfstæðisflokksins væru mislagðar hendur á örlagatímum, hafa líklega aldrei heyrt talað um öskuna og eldinn.

Í gær sagði Vefþjóðviljinn frá því hvernig „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins réði sér varla yfir þeim stórtíðindum að Evrópusambandssinninn kunni, Benedikt Jóhannesson, forsvarsmaður baráttuhópsins sammala.is, hefði daginn áður skrifað grein í Morgunblaðið og hvatt þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að styðja tillögu um inngöngubeiðni í Evrópusambandið. Vitaskuld var þó ekkert fréttnæmt við málið, en stuðningur þessa manns við málið var öllum kunnur, enda hafði hann marglýst honum áður og meira að segja birst í tæplega líkamsstærð í heilsíðuauglýsingum í öllum blöðum fyrir síðustu kosningar til þess að kynna hana. Engu að síður lét „fréttastofan“ eins og stórfrétt væri á ferð. Önnur frétt dagsins, kynnt af fréttaþul og svo löng romsa hjá fréttamanni, meira en ein mínúta og fjörutíu sekúndur, með löngum lestri úr grein Benedikts.

En í gær gerðust hins vegar raunveruleg stórtíðindi í íslenskum stjórnmálum. Það opna bréf sem áður var minnst á, sem frambjóðendur og aðrir forystumenn vinstrigrænna í kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar skrifuðu, þar sem honum er lýst sem ómerkingi ef hann geri alvöru úr því að greiða atkvæði með inngöngubeiðni í Evrópusambandið, er ekkert minna en stórtíðindi.

Það er algerlega fáheyrt að hópur frambjóðanda á framboðslista kalli oddvita sinn og flokksformann ómerking, í opnu bréfi sem birt er alþjóð, og það aðeins tveimur og hálfum mánuði eftir alþingiskosningar. Og þegar þetta gerist innan vinstrigrænna, í kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar, í þeim flokki þar sem aldrei hefur orðinu verið hallað á formanninn utanhúss, mynd hans er prentuð á boli sem flokksmenn margir hverjir ganga í, og framan á kosningabæklingum er andlitsmynd hans svo stór að bókstaflega er hægt að telja skegghárin, þá minnka ekki stórtíðindin.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði frá málinu í gær, í sjöundu frétt. Fréttina las fréttalesarinn Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir eins hratt og hún gat með góðu móti og náði að ljúka því skylduverki á tuttugu og fjórum sekúndum.

Og beri menn það nú saman við fréttina af grein Benedikts Jóhannessonar.

* Einn maður, sem ekki gegnir trúnaðarstöðum, lýsir skoðun sem hann hefur marglýst undanfarna mánuði og þar að auki auglýst á eigin kostnað dögum saman fyrir síðustu kosningar: Önnur frétt, sérstakur fréttamaður, ein mínúta og fjörutíu og tvær sekúndur.
* Tólf forystumenn vinstrigrænna, þar af sex frambjóðendur flokksins í kjördæmi formannsins, kjörnir trúnaðarmenn flokksins og bæjarfulltrúi hans og oddviti í langstærsta sveitarfélagi í kjördæmi formannsins kalla Steingrím J. Sigfússon ómerking í opnu bréfi til þjóðarinnar: Sjöunda frétt, þulur les, afgreitt á tuttugu og fjórum sekúndum.
Þeir sem telja að Ríkisútvarpið reki í raun fréttastofu, eru beðnir um að rétta upp hönd. Það má vera sú vinstri.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins segist njóta mikils trausts almennra borgara. Fyrir ári sagði fjármálaeftirlitið það líka.

ÍÍ seinnifréttum Ríkissjónvarpsins er jafnan talið upp hvað „var helst í fréttum hjá okkur klukkan sjö“. Í yfirliti gærkvöldsins var flestallt nefnt; skuldir þjóðarbúsins, erlendir kröfuhafar gætu eignast Kaupþing, einkafyrirtæki gæti eignast þriðjungshlut í orkufyrirtækinu Þeistareykjum, strandveiðum er að ljúka á Norðvesturlandi, tveir dalmatíuhundar réðust á smáhund í Fossvogsdal „fyrir skömmu“ og unnið er að þróun nýrrar tækni við veðurrannsóknir hér á landi. EN – viti menn, ein frétt var ekki talin þess verð að vera talin með öllum þessum stórtíðindum, en hún var nú bara eitthvert hversdagslegt efni eins og að forystumenn og frambjóðendur vinstrigrænna í norðausturkjördæmi segi Steingrím J. Sigfússon ómerking. Það þykir nú ekki merkilegt á „fréttastofu Ríkisútvarpsins“ að minnsta kosti ekki í sömu viku og dalmatíuhundur ræðst á smáhund og strandveiðum lýkur senn.

Ríkisútvarpið rekur ekki fréttastofu. Það rekur ósvífna áróðursskrifstofu sem hamast og hamast, í trausti þess að enginn segi neitt og fréttastjóri, vaktstjórar og fréttamenn muni aldrei sæta neinni ábyrgð.

Þ eir forystumenn vinstrigrænna sem skrifa undir bréfið, ávarpa í Steingrím J. Sigfússon í því og segjast meðal annars hafa „rætt við marga innan hreyfingarinnar og ekki enn fundið neinn sem er sammála þeirri leið sem þú og meirihluti þingmanna okkar ætlar að fara“. Ekki neinn. Nei, það er nú ekki eins fréttnæmt og margtuggin sjónarmið Benedikts Jóhannessonar framkvæmdastjóra.

Sjöunda frétt, tuttugu og fjórar sekúndur. Nær ekki í yfirlitið í seinnifréttum. Og stjórnarandstaðan flýtir sér að taka málið af dagskrá.