Þriðjudagur 14. júlí 2009

195. tbl. 13. árg.

Í gær tókst fréttastofu Ríkisútvarpsins að gera frétt. Þau stórtíðindi höfðu nefnilega orðið að „Benedikt Jóhannesson framkvæmdastjóri Talnakönnunar“ hafði skrifað grein í Morgunblaðið og hvatt til þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins afgreiddu Evrópusambandstillögu Össurar Skarphéðinssonar í samræmi við stefnu Össurar og Benedikts Jóhannessonar, fremur en landsfundar Sjálfstæðisflokksins.

Benedikt var í vor einn af forkólfum auglýsingaherferðarinnar „sammala.is“, þar sem hvatt var til inngöngu í Evrópusambandið, og var auglýsingunum augljóslega beint til sjálfstæðismanna til að fá þá til að kjósa Samfylkinguna. Afstaða hans til inngöngu í Evrópusambandið hefur lengi verið ljós og margboðuð opinberlega. Engu að síður tókst fréttastofu Ríkisútvarpsins að gera það að annarri frétt gærdagsins að Benedikt Jóhannesson hvetti þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að styðja aðild að Evrópusambandinu. Grein hans rakin ýtarlega fyrir hlustendum eins og stórtíðindi.

Hverjum dettur nú í hug að þetta sé eðlileg fréttamennska? Dettur einhverjum í hug að blaðagrein Benedikts Jóhannessonar, eins ákafasta Evrópusinna landsins, manns sem í vor kom sjálfur fram í hverri heilsíðuauglýsingunni á fætur annarri þar sem hann hvatti til inngöngu í Evrópusambandið, hafi verið fréttnæm? Greinin rakin ýtarlega sem frétt númer tvö í landinu. Dettur einhverjum í hug að fréttastjóri Ríkisútvarpsins, vaktstjóri og fréttamaður hafi ekki vitað þetta allt saman?

Auðvitað var þetta ekki fréttnæmt og auðvitað vissi fréttastjórinn það vel. Hann lét bara samt rekja greinina vandlega í hádegisfréttum, og það sem aðra frétt.

Og það gerir hann í trausti þess að enginn segi neitt. Í því trausti er fréttastofu Ríkisútvarpsins nú beitt miskunnarlaust dag eftir dag í pólitísku stríði. Og svo ömurlega er komið fyrir íslenskum fjölmiðlum að þar eru nú fáir eftir til andsvara, Morgunblaðið er notað eins og það er notað þessa dagana, bersýnilega samkvæmt ákvörðun eigenda sinna, aðrir fjölmiðlar eru eins og þeir eru, og ekki mun Sjálfstæðisflokkurinn bera hönd fyrir höfuð sér, svo að honum geta menn sótt að vild.

Og þetta vita „fréttamennirnir“ sem færast allir í aukana, vitandi það að þeir munu engri ábyrgð sæta, hvernig svo sem þeir misnota fréttastofuna.

U mræður standa nú á alþingi um tillögu Össurar Skarphéðinssonar um að Ísland sæki um inngöngu í Evrópusambandið. Amx.is furðaði sig á því, að eftir samfelldar umræður frá hádegi til miðnættis hefði fréttastofa Ríkisútvarpsins talið það eina frásagnarverða úr umræðunum að „að stjórnarandstæðingar kvörtuðu undan fundi fram eftir kvöldi á föstudegi og að þingfundur yrði á laugardegi.“

Þetta hefði nú ekki þurft að koma neinum á óvart. Á fréttastofunni hefur lengi tíðkast að segja aðeins frá aukaatriðum í máli þeirra sem fréttamenn eru á móti, eins og dæmin sanna, og má sem skýrt dæmi um þessa vinnuaðferð fréttastofunnar um, minna á þegar þingfréttaritari hennar neyddist til að segja í örfáum orðum frá umsögn Seðlabanka Íslands um frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur til nýrra laga um bankann. Þá var áberandi hversu þingfréttaritarinn sleppti augljósum „fréttapunktum“, en sagði aðeins frá aukaatriðum, sem ljóst mátti vera að enga athygli hlytu og öllum væri sama um, eins og rakið var á sínum tíma, málsmeðferð, tímafrestum og öðru slíku.

Vinnubrögðin við „fréttaflutninginn“ af tillögunni um inngöngu í Evrópusambandið eru þau sömu og áður. Þegar kemur að frásögn af málstað þeirra sem fréttastofunni, eða einstökum fréttamönnum, er í nöp við, þá frétta áhorfendur fyrst og fremst af aukaatriðum sem litla athygli vekja. Að ekki sé nú talað um það þegar sérstaklega er farið á stað og búnar til sérstakar „fréttir“, beinlínis til þess að villa um fyrir áhorfendum, eins og Björn Malmquist gerði á dögunum.