Mánudagur 29. júní 2009

180. tbl. 13. árg.

N okkuð er nú liðið frá síðustu Andríkispunktum. Hið snarfurðulega baráttumál vinstriflokkanna, Icesave-samkomulagið við Breta og Hollendinga, hlýtur að kalla á nokkra.

  • Enginn veit auðvitað enn hversu dýr hún verður Íslendingum, Icesave-ánauðin þegar vinstriflokkarnir verða búnir að þvinga hana í gegnum alþingi. En hitt er ljóst, að hana verður að borga erlendum ríkjum með erlendum gjaldeyri. Til að geta reitt hann fram, verður íslenska ríkið að nota þann gjaldeyri sem inn kemur frá útflutningsgreinunum, fyrst og fremst sjávarútvegi og stóriðju. Þá skuldbindingu sem vinstriflokkarnir vilja að Ísland geri nú, má reikna í 900 milljarða króna á núverandi gengi, en þá á eftir að sjá hvað fæst fyrir eignir Landsbankans. Það er meira en virði alls útflutnings frá Íslandi – og augljóslega er ekki hægt að nota allar útflutningstekjurnar til að borga þennan samning vinstriflokkanna, því eitthvað vilja menn líklega flytja inn af vörum.
     
  • Vinstriflokkarnir halda því ákaft fram að „við einangrumst“, ef við göngum ekki að afarkostum Breta og Hollendinga. En það eina sem flestir andstæðingar Icesave-ánauðarinnar fara fram á, er að látið verði reyna á rétt íslenska ríkisins fyrir dómstólum. Það er ekki eins og menn séu að leggja til að dæmd skuld verði ekki greidd. Hvaða siðmenntaða ríki myndi einangra aðra fyrir það eitt að leggja erlenda skuldbindingu, sem næmi öllum útflutningstekjum árum saman, fyrir löglegan dómstól? Eru Bretland og Holland slíkt ríki? Varla getur það verið, ekki hefur þess orðið vart að þrá Samfylkingarinnar og loforð vinstrigrænna um að leggjast varanlega undir Evrópusambandið hafi minnkað í kjölfar afarkostanna í Icesave-málinu.
     
  • Ef takast á að greiða Icesave-ánauðina, þá verður það aðeins gert með gjaldeyri sem fæst af fisksölu erlendis og stóriðju hér á landi. Ætli ríkisstjórninni hafi ekki þótt skynsamlegt að hafa í „samningnum“ fyrirvara um fiskverð og álverð?
     
  • Icesave-ánauðin, sem ríkisstjórnin berst fyrir að Ísland taki á sig, verður ekki greidd nema með gjaldeyri frá sjávarútvegi og stóriðju. Annar stjórnarflokkurinn hatar stóriðju. Hinn sjávarútveginn.
     
  • Ætli til sé það ríki í veröldinni, annað en Ísland, og til sú ríkisstjórn í veröldinni, önnur en sú sem hefur Samfylkinguna innanborðs, sem myndi láta sér koma til hugar að skuldbinda sig til að greiða öðrum ríkjum jafnvirði margra ára útflutningstekna, án þess að láta einu sinni reyna á réttmæti krafna hinna erlendu ríkja? Slíkt ríki er ekki til enda starfar Samfylkingin aðeins á Íslandi, þó nokkrir af forystumönnum hennar stæri sig af því að greiða enn félagsgjöld til Verkamannaflokks Gordons Browns og Alaistairs Darlings.
     
  • Talsmenn Samfylkingarinnar tóku upp á því, með samstilltu átaki, að spyrja andstæðinga Icesave-ánauðarinnar hæðnislega undir hvaða dómstól þeir vildu eiginlega bera málið. En hvers vegna þurfa Íslendingar að benda á dómstól? Ekki eru þeir að rukka nokkurn mann. Ef að Bretar og Hollendingar telja sig eiga fé hjá Íslendingum, og vilja ekki fallast á gerðardóm um málið, þá er hægt að stefna íslenska ríkinu fyrir íslenska dómstóla, og er það raunar gert í hverri viku.
     
  • Annar frasi sem mikið er notaður, er að Íslendingar eigi að „standa við skuldbindingar sínar“. Gott og vel, um að gera að standa við skuldbindingar sínar. En vilja talsmenn Icesave-ánauðarinnar þá vera svo vingjarnlegir að benda á skuldbindinguna sem Íslendingar eiga að standa við. Hvar og hvenær skuldbatt íslenska ríkið sig til að standa skil á Icesave-ábyrgðunum? Er frumvarp ríkisstjórnarinnar ekki einmitt staðfesting þess að slík skuldbinding er ekki fyrir hendi? Ef þessi skuldbinding er í raun og veru til, þá þarf alþingi varla að skuldbinda landið aftur, eða hvað?
     
  • Lengi vel máttu alþingismenn og aðrir landsmenn bíða og reyna að geta upp á því hvað stæði í samkomulaginu sem ríkisstjórnin gerði við Breta og Hollendinga. Ríkisstjórnin þóttist ekki hafa leyfi útlendinganna til að segja Íslendingum hvað stæði í þeirra eigin samkomulagi, en sendi nokkur bréf út þar sem hún auðmjúklegast bað um leyfi til að fræða landsmenn sína. Þetta eru mennirnir sem tóku að sér að gæta hagsmuna Íslands gagnvart hinum erlendu ríkisstjórnum. Ætli þeir hafi verið harðir í samningum um önnur efni?
     
  • Og þeir menn sem koma heim með Icesave-ánauðina og heimta að hún verði staðfest þegar í stað, hver treystir þeim til að semja um aðild Íslands að Evrópusambandinu? Halda menn að þeir muni halda af meiri trúmennsku á hagsmunum landsins þar?
     
  • Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherrann sem virðist mega fara með ósannindi í opinberum yfirlýsingum, fullyrti gagnrýnislaust að Ísland yrði að „Kúbu-norðursins“ ef ekki yrði gengið að Icesave-ánauðinni. Sú varfærna yfirlýsing þýðir á mannamáli: Ef frumvarpið verður fellt, þá verð ég kannski ekki ráðherra lengur.
     
  • En auðvitað verður frumvarpið samþykkt. Vinstrigrænir munu samþykkja allt. Ögmundur Jónasson ætlar meira að segja að samþykkja Evrópusambandsumsókn „í nafni lýðræðisins“. En hann ætlar líka, sömuleiðis í nafni lýðræðisins, að hafna tillögu um þjóðaratkvæði um það hvort sækja um eigi um aðildina. Eins mun hann hafna tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-ánauðina, nema tryggt sé með atkvæðum annarra vinstrigrænna að tillagan verði örugglega felld.
     
  • Ríkisútvarpið fullyrti glaðbeitt í gær að Icesave-ánauðin myndi „ekki setja Ísland á hliðina“. Þegar betur var að gáð kom í ljós, að þetta, sem Ríkisútvarpið kynnti sem mikinn fróðleik, var einfaldlega skoðun Franeks Rozwadowskis, starfsmanns alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nei, annar eins maður og Oliver Lodge fer ekki með neina lygi. Ekki fylgdi fréttinni hvort Franek Rozwadowski myndi, ef illa færi, borga sjálfur það sem upp á vantaði.
     
  • Annars er merkilegt að menn ræði það fram og til baka hvort Icesave-ánauðin setji „Ísland á hliðina“ eða ekki. Vinstristjórnin telur „yfirgengilegt ábyrgðarleysi“, svo vitnað sé í einn kokvíðasta mann Íslands, Steingrím J. Sigfússon, ef ekki verði þegar í stað gengið að samkomulagi sem er slíkt álitamál hvort að setji landið „á hliðina“. Alls ekki megi fá úr því skorið hvort nokkur skylda beri til þess.
     
  • Ögmundur Jónasson ætlar að sjá til þess að Samfylkingunni verði að þeirri ósk sinni að fullveldi Íslands verði um alla framtíð afhent erlendu ríkjabandalagi. Steingrímur J. Sigfússon leggur allt í sölurnar til að Samfylkingunni verði að þeirri ósk að ríkið ábyrgist tveimur erlendum ríkjum verðmæti sem nemur samanlögðum margra ára útflutningsverðmætum alls landsins. Fyrir þetta fá þeir tveir að vera ráðherrar í nokkra mánuði, kannski hátt í eitt kjörtímabil. Aldrei nokkurn tíma hefur eins tvísýn barátta farið fram um Norðurlandametið í kokvídd.
     
  • Af hverju kallar Vefþjóðviljinn Icesave-„samninginn“ Icesave-ánauðina? Ríkisstjórnin gerir það eiginlega sjálf, ef grannt er skoðað. Hún lætur eins og hún vilji ekki gera samninginn en hún bara geti ekki annað. Ísland eigi bara ekkert val. En ef það er rétt, þá er auðvitað ekki samkomulag á ferð, heldur hrein og klár ánauð. Og ef ríkisstjórnin hefur sitt fram, sem hún gerir því að vinstrigrænir munu lúffa fyrir krötum í þessu máli eins og öllum öðrum, þá hefur alþingi fært alla Íslendinga undir sömu ánauð.
     
  • Þegar meirihluti alþingismanna samþykkir Icesave-ánauðina, þá er tekin sú ákvörðun að íslenskir skattgreiðendur taki á sig stórfelldar skuldir vegna ófara einkafyrirtækis. Þá, en fyrr ekki, hefur sú ákvörðun verið tekin svo bindandi sé fyrir Ísland, hvort sem gösprurum líkar það betur eða verr.
     
  • Hvernig líður góðum og gegnum vinstrimönnum núna, þegar þeir horfa upp á Steingrím J. Sigfússon og Ögmund Jónasson selja allt sem selt verður, til að kaupa ráðherrastóla í nokkur misseri?