J æja, þá er að líta aðeins upp úr því lítt hughreystandi ástandi sem er í íslenskum stjórnmálum. Smáræði utan úr heimi rak á fjörur Vefþjóðviljans á dögunum þar sem hann dró ýsur í rólegheitum.
Í síðustu viku þótti það stórfrétt í Frakklandi að forseti Frakklands gerði sér fordæmislausa ferð í franska þingið og hélt þar ræðu. Meðal þess sem hann þar sagði, og vakti athygli út fyrir landsteina, var að hinn umdeildi klæðnaður margra múslimakvenna, búrkan, væri ekki velkomin í Frakklandi. Þessi klæðnaður væri alls ekki tákn trúar, eins og sumir fjölmenningarmenn halda ákaft fram, heldur hreinlega tákn fyrir undirgefni kvenna. Hefur Morgunblaðið eftir Sarkozy að ekki verði lengur unað við að „konur séu fangar á bak við net, útilokaðar frá öllu félaglífi og sviptar sjálfsímynd“, og er vissulega gott ef rétt er eftir haft.
Raunar er Sarkozy svo andvígur undirgefni kvenna að sjálfur fékk hann sér konu sem hefur þann kost að hann nær henni ekki í höku, nema hoppa. Mun hann í því skyni, samkvæmt þeim upplýsingum sem Vefþjóðviljinn, einn fjölmiðla, hefur aflað sér, hafa látið koma fyrir fjölmörgum trampólínum í Elysée-höll, enda vill hann ólmur taka þátt í þeirri siðvenju franskra karlmanna, að kyssa á morgnana annað hvort sína konu eða þá einhvers annars.
En svo aftur sé haldið að þessum orðum forseta Frakklands, sem benda til að hann hafi að minnsta kosti stundum bæði opnari augu og munn en ýmsir þjóðarleiðtogar Evrópu, þá leiða þau hugann að þeirri áhrifamiklu bók, Dýrmætast er frelsið, sem til sölu er í Bóksölu Andríkis. Í þeirri augnaopnandi bók, sem er innlegg í sömu umræðu og metsölubókin Íslamistar og naívistar, er fjallað um eina birtingarmynd þeirra ótrúlega öru þjóðfélagsbreytinga sem verða nú á Vesturlöndum í kjölfar mikils straums innflytjenda þangað, úr framandi menningarheimi. Hefðbundin vestræn gildi eiga nú mjög víða undir högg að sækja, hvort sem mönnum finnst það góð eða slæm þróun. Eitt það alvarlegasta, sem fjölmenningarmenn í hópi þeirra Vesturlandabúa sem fyrir voru vilja sem minnst ræða, er kúgun og ofbeldi sem óhugnanlega stór hópur nýbúa býr við, af hendi fólks úr eigin röðum.
Stjórnvöld Vesturlanda, ekki síst á Norðurlöndum, láta eins og hið kúgaða fólk sé ekki til. En það fólk fær rödd í Dýrmætast er frelsið. Það er afar mikilvægt að Íslendingar átti sig á því hvað getur gerst, ef menn hafa ekki augun opin í svonefndum innflytjendamálum, því allir sæmilegir menn hljóta að vilja, að þeir sem hingað flytjast löglega, hvort sem þeir verða margir eða fáir, fái notið friðar og frelsis.
Drjúgur hluti Dýrmætast er frelsið fjallar um ástandið á Norðurlöndum. Kúgun, heiðursmorð, nauðungarhjónabönd innan fjölskyldu eru þar rakin og útskýrð og eru þær lýsingar sláandi. Ekki er til dæmis víst að menn átti sig á því hversu hjónabönd eru víða notuð sem leið til þess að koma fólki inn til nýja landsins, en ungt fólk er miskunnarlaust neytt til þess að giftast eldra fólki sem það hefur jafnvel aldrei hitt, eða er kannski náskylt, til að „makinn“ komist til Norðurlanda á grundvelli „fjölskyldusameiningar“. Dönsk stjórnvöld reyndu, með svokallaðri „24ra ára reglu“, að vernda ungar stúlkur fyrir því að vera með þessum hætti notuð sem „lifandi vegabréfsáritanir“, en sættu aðkasti atvinnumannréttindamanna um allan heim. Dýrmætast er frelsið opnar augun öfgalaust fyrir ýmsu því sem við er að glíma á þessu sviði.
Og af því að orð forseta Frakklands minntu á þessi mál í dag, þá má geta þess að stuttlega er fjallað um Frakkland í bókinni. Ekki er rétt að endursegja hér lýsingar á „heiðursmorðum“ og öðru slíku ofbeldi en gripið niður á nokkrum sárasaklausum stöðum í umfjöllun bókarinnar um ástandið í Frakklandi.
Íslamísk samtök á borð við Múslimska bræðralagið hafa fest rætur í Frakklandi með yfirgripsmiklu neti sem þiggur verulegar fjárhæðir, meðal annars frá hinum öfgasinnuði wahabbistum í Sádi-Arabíu. Íslamskir hópar fara í eftirlitsferðir um mörg borgarhverfi múslima. Til dæmis ganga þeir frá einu heimili til annars til að segja fólki að konur megi ekki fá meðhöndlun karlkyns lækna, að múslimar megi ekki þiggja blóð frá kristnum eða gyðingum og að stúlkum sé bannað að leggja stund á náttúruvísindi og taka þátt í sundkennslu. Kverkatak íslamista á venjulegu fólki kom vel í ljós þegar rannrókn var gerð meðal íbúa í sérhverfinu Courneuve. Aðspurðar sögðu 77 prósent múslimskra kvenna sem báru slæðu, að þær gerðu það vegna þess að þær óttuðust að ella myndu eftirlitssveitir íslamistanna abbast upp á þær. … Í sumum sérhverfum hafa trúarleiðtogar verið útnefndir sem félagslegir og stjórnmálalegir leiðtogar. Þeir hafa opinberlega lýst því yfir að þeirra svæði séu múslimsk. Dæmi um þetta er að finna í frönsku borginni Roubaix. Á jaðri svæðis þar sem múslimar eru í meirihluta, hitti forystu-imam borgarstjórann. Imaminn lýsti því yfir að svæðið tilheyrði honum. Borgarstjórinn gat ekki vísað til þess að hann hefði neina stöðu til að andmæla þessu. … Spyrja má, hvort íslamsvæðingin hafi gengið svo langt og múslimski þjóðahópurinn sé orðinn svo stór, að ekki sé hægt að snúa þróuninni við. Á meðal þess hluta frönsku þjóðarinnar sem er undir 25 ára aldri, eru 20-30 prósent múslimar. Fæðingartíðni þeirra er miklu hærri en meðal innfæddra Frakka. Þetta, ásamt miklum innflutningi, sér í lagi vegna hjónabanda þar sem makar eru sóttir til upprunalandsins, bendir til að Frakkland verði fyrsta land Evrópu þar sem múslimar verða í meirihluta, sem mun sennilega gerast innan 25 ára. Sú staðreynd að franska ríkisstjórnin hefur verið í viðræðum við hið róttæka þjóðarráð múslima í Frakklandi, í því skyni að bæta aðlögunina, hefur sætt gagnrýni frá veraldlega þenkjandi múslimum í landinu. Margir hófsamir múslimar í Evrópu álíta að stjórnvöld hafi brugðist þeim. |
Það sem hér var nefnt síðast, er eitt af því sem Vesturlandabúar ættu sérstaklega að hugsa um. Sumir þeirra sem haldnir eru alvarlegri fordómaleysislöngun mega ekki til þess hugsa að ekki sé allt með felldu í samfélögum nýbúa. Þeir telja sér trú um, að allir þeir sem benda á að sums staðar sé maðkur í mysunni, geri það af tómri illmennsku, eða því sem verst sé alls í þessum heimi: fordómum. En staðreyndin er sú, að víða á Vesturlöndum viðgengst stórfellt ofbeldi og raunveruleg kúgun minnihlutahópa, og virkilega sérstakt að það séu ekki síst þeir, sem halda sig upplýsta og umburðarlynda, sem helst loka augunum fyrir því.