Laugardagur 27. júní 2009

178. tbl. 13. árg.

E f að íslenska ríkið situr uppi með skuldbindingar vegna Icesave má heita ljóst að innan EES eru engin raunverulegir einkabankar starfandi, aðeins bankar með ríkisábyrgð. Evrópusambandið túlkar reglurnar þannig því það vill ekki setja fjármálakerfi álfunnar í uppnám.

Fari allt á versta veg geta samanlagðar skuldbindingar vegna Icesave og lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum verið meiri en verðmæti framleiðslu Íslendinga á einu ári. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kallar það að „við höfum komist í skjól“ að ríkissjóður hafi fengið kúlulán til 7 ára hjá Bretum og Hollendingum fyrir Icesave samningnum. Þetta er ekkert annað eyða-núna-borga-seinna-hugsunarhátturinn sem hefur komið svo mörgum fyrirtækjum og einstaklingum í veruleg vandræði á liðnum misserum.

Því er einnig haldið fram að Íslendinga bíði einangrun ef ekki þeir beygi sig ekki undir samninginn og er þá nefnt að „við“ munum hvergi fá lán erlendis og lánafyrirgreiðsla Alþjóða gjaldeyrissjóðsins verði úr sögunni. En hver ætlar að lána Íslendingum meira þegar þeir hafa tekið á sig skuldir sem nema þjóðarframleiðslunni? Og hvernig á gjaldmiðillinn að eiga sér viðreisnar von með slíkar erlendar skuldir í eftirdragi? Hin meinta einangrun er auðvitað ekkert annað en kvíði embættis- og stjórnmálamanna fyrir því að mæta á fundi með evrópskum kollegum sínum og þurfa að sitja undir athugasemdum um að Íslendingar hafi svikist um að breiða yfir reglugerðaklúður Evrópusambandsins.

Þ að hefur verið mikið kvartað undan því að almenningur sé ekki upplýstur um hvernig staðan sé í raun og veru. Ef menn vilja vita hver sannleikurinn er mætti hugsa sér þetta:

  • Skila láninu frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.
  • Afþakka að ríkissjóður Íslands taki við skuldbindingum Tryggingasjóðs innistæðueigenda vegna Icesave.
  • Aflétta gjaldeyrishöftum og takmörkunum á innflutningi.
  • Lækka skatta og ríkisútgjöld verulega.
  • Selja hinar þjóðnýttu bankaskeljar án verulegrar endurfjármögnunar.

Þannig komast menn kannski nær raunveruleikanum. Til dæmis að raunverulegu gengi krónunnar.

Og það er ekkert sem bendir til að raunveruleikinn sé verri en spilaborgin sem stjórnmálamennirnir eru að reisa með stórfelldum erlendum lántökum og haftabúskap.