Föstudagur 26. júní 2009

177. tbl. 13. árg.

Í gær var kynntur „stöðugleikasáttmáli“, fullur af innantómum orðum en rýr að flestu öðru leyti. Þann dag allan var efsta frétt á fréttavef Morgunblaðsins undir fyrirsögninni: Til hamingju með sáttmálann.

Ef lesið var inn í fréttinni kom í ljós að Jóhanna Sigurðardóttir hafði einfaldlega við undirritun óskað mönnum til hamingju með samkomulagið. Það dugði þeim í Hádegismóum til að segja þjóðinni heilan dag að sérstakt hamingjuefni væri fundið.

Í morgun segir Morgunblaðið frá sama sáttmála í frétt undir stórri fyrirsögn: „Jóhanna glansar á prófinu“.

Þessi „stöðugleikasáttmáli“ er að mestu leyti ekki neitt neitt og menn þurfa ekki að velta lengi fyrir sér hvort verkalýðsforstjórarnir hefðu verið eins auðsveipir í taumi ef Gylfi Arnbjörnsson hefði ekki fyrir löngu lagt Alþýðusamfylkingunna inn í móðurflokkinn og ef samtök opinberra starfsmanna væru ekki í raun enn undir forystu heilbrigðisráðherra, svo furðulegt sem það nú er. En þetta gæta fréttamenn sín á að nefna ekki. Ekki fremur en það stórfurðulega mál, að við gerð „stöðugleikasáttmála“ hafi menn engar áhyggjur af því að alþingi muni eftir örfáa daga skuldbinda íslenska skattgreiðendur til framtíðar til að greiða erlendum ríkjum hundruð milljarða króna – í erlendum gjaldeyri. En hinn aðili „stöðugleikasáttmálans“ er auðvitað sá sami og síðastliðið haust krafðist þess daglega að gengið yrði til samninga við alþjóðagjaldeyrissjóðinn og taldi að sá sjóður myndi nú alls ekki krefjast hærri vaxta í landinu.

Ekkert af þessu vekur áhuga áróðursvélarinnar í Hádegismóum. Þar glansar Jóhanna á prófunum. Til hamingju með sáttmálann.

Á einhverjum allra mestu örlagatímum í sögu landsins, þegar ríkisstjórn vinnur hörðum höndum að því að koma landinu undir erlend ríkjabandalag og skuldsetja landsmenn um ótrúlegar fjárhæðir næstu árin, og Ríkisútvarpið, að ekki sé minnst á aðra fjölmiðla, hamast með ríkisstjórninni í því – þá senda Ólafur Stephensen og Óskar Magnússon á hverjum degi frá sér harðsvírað stuðningsblað Evrópusambandsins, Icesave-ánauðarinnar og Samfylkingarinnar.