Þriðjudagur 30. júní 2009

181. tbl. 13. árg.
Samningurinn samsvarar því, miðað við höfðatölu, að Bretar samþykktu 700 milljarða punda og Bandaríkjamenn 5,6 trilljónir dollara. Ég fæ ekki séð að þær auðsælu þjóðir tækju slíkar byrðar á sig við bestu kringumstæður, hvað þá í miðri kreppu. Það er algerlega óþolandi að íslenska ríkið taki þetta á sig í heild sinni. Þessar grannþjóðir okkar verða að horfast í augu við einstaklega erfiða stöðu okkar og burði þjóðarinnar til þess að standa undir skuldbindingunum án þess að hér verði örbirgð og landauðn. Sérstaklega á það þó við fyrir þær sakir að þær eiga ríkan þátt í því hversu ömurlega er komið fyrir okkur.
– Jón Daníelsson prófessor vill að Alþingi felli Icesave-ánauðina, eins og lesa má í grein hans í Morgunblaðinu í dag.

E vrópusambandið hefur stillt Íslendingum upp við hlaupendann í rússneskri rúllettu með þeirri nýjung að kúlan er sjö ár á leiðinni eftir að hleypt verður af. Sambandið hefur löngum þótt svifaseint. En það er aðeins Alþingi Íslendinga sem getur tekið í gikkinn. Samfylkingin er búin að afskrifa Ísland og þingmenn hennar munu ekki hika við það. Athyglin beinist því að nokkrum þingmönnum vinstri grænna á næstu dögum.

Í umræðum um Icesave málin er því látlaust haldið fram að enginn vilji eiga viðskipti við „okkur“ ef ríkissjóður Íslands tekur ekki á sig þá mörg hundruð milljarða króna sem Tryggingasjóður innistæðueigenda – innistæðutryggingakerfið samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins – getur ekki greitt. Þetta er auðvitað fjarstæða. Það hugsa engir stjórnendur einkafyrirtækja eða banka sem svo að öll íslensk fyrirtæki séu svikamyllur þótt tryggingakerfi innistæðueigenda hafi brugðist.

Það er nærtækara að hafa áhyggjur af því hvort menn vilji eiga viðskipti við fyrirtæki í landi þar sem ríkið tekur á sig fáránlegar skuldbindingar sem það getur ekki staðið undir með nokkru móti. Er ekki bara tímaspursmál hvenær slíkt ríki verður upplausn að bráð?

Því er jafnvel haldið fram að Ísland yrði rekið úr EES fyrir þær sakir að taka ekki á sig Icesave skuldirnar. Segjum bara að það sé mögulegt. Þá vaknar sú einfaldlega sú spurning hvort EES samningurinn sé 700 milljarða króna virði. Í erlendri mynt. Er aðgangur að evrópska efnahagssvæðinu verðmætari en allur útflutningur frá Íslandi í meira en ár?