Föstudagur 5. júní 2009

156. tbl. 13. árg.

F ormanni Félags íslenskra hjúkrunarkvenna var mikið niðri fyrir í gær. Fyrirtækinu Poulsen, sem selur varahluti í bifreiðar, hafði nefnilega orðið á að senda frá sér bækling sem sýndi unga konu í búningi hjúkrunarkonu, þess albúna að hlúa að bifreið. „Þarna er verið að klámgera heila fagstétt, sem er með fjögurra ára háskólanám að baki,“ hefur Morgunblaðið eftir Elsu B. Friðfinnsdóttur, svo alvara málsins ætti ekki að fara fram hjá neinum. Hér er ekki verið að klámgera einhverjar ómenntaðar kerlingar sem ekki eiga betra skilið og vita sennilega fæstar hvað klám er. Nei, hér er verið að klámgera stétt sem er með fjögurra ára háskólanám að baki svo nú er mælirinn fullur.

Enda kveðst formaður hjúkrunarkvenna hafa brugðist hart við. Hún hafi sent öllum félagsmönnum bréf og beðið þá um að skrifa Poulsen og mótmæla þessum auglýsingabæklingi og segist einnig hafa haft samband við Íslandspóst þar sem hún telji óeðlilegt að fyrirtækið dreifi bæklingnum.

Þetta er auðvitað stóralvarlegt mál. Það er alveg svakalegt að þeir hjá Poulsen séu að klámgera stétt með fjögurra ára háskólanám en geti ekki látið sér nægja einhverja ómenntaða stétt, eða einhverjar stelpur með hámark BA próf. Því rétt eins og fæðingarorlofið, þá eru klámfræðin hugsuð fyrir langskólagengnar konur með háar tekjur.

Í vikunni var þess minnst með hryllingi víða um heim að tuttugu ár eru liðin frá því byltingarstjórnin í Peking sendi herinn gegn því fólki sem hafði safnast saman á „Torgi hins himneska friðar“ til að krefjast lýðræðis í landinu. Víða voru haldnar samkomur til að minnast þessa blóðbaðs kommúnistastjórnarinnar. Ríkisstjórn Íslands minntist þessa með sínum hætti, með því að afþakka öll boð um að hitta Dalai Lama, leiðtoga Tíbeta, sem hér var á ferð í vikunni, enda hefði það móðgað stjórnvöld í Peking og fækkað boðsferðum og viðskiptasamningum.

En það er rétt að minnast þess að íslensk stjórnvöld, ekki síst vinstrigrænir, eru miklir hugsjónamenn sem aldrei myndu láta áhuga sinn á mannréttindum lúta í lægra haldi fyrir hugsanlegum viðskiptasamningum.

En að vísu er rétt að muna að Jóhanna Sigurðardóttir hafnaði ekki boði um að hitta Dalai Lama vegna þess að þá myndu kínverskir kommúnistar reiðast. Hún afþakkaði af því að hún hafði heyrt að Dalai Lama væri útlendingur.

Svo var hún líka upptekin.