Laugardagur 6. júní 2009

157. tbl. 13. árg.

U ndanfarna mánuði hafa streymt fram upplýsingar um fjármál Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á liðnum árum, ekki síst frá árinu 2006. Þar á meðal eru upplýsingar sem skrifstofur flokkanna hafa verið að leita uppi og safna saman upp á síðkastið um styrki til einstakra félaga og kjördæmasamtaka innan flokkanna.

Vinstri grænir hafa til að mynda upplýst að þeir hafi þegið styrki frá eigendum nektardansstaða þótt þeir hafi áður þrætt fyrir það. Félög innan Samfylkingarinnar kræktu í svipaða fjárhæð frá fyrirtækjum og aðalskrifstofa flokksins á árinu 2006.

Þetta eru nýjar upplýsingar um fjármál stjórnmálaflokka sem um árabil hafa haldið því fram að þeir séu með „opið bókhald“. Nú þurfa þeir hins vegar að leita dyrum og dyngjum að upplýsingum um stóran hluta þeirra styrkja sem þeir fengu sjálfir frá fyrirtækjum.