S jálfstæðisflokkurinn mun nú hafa greitt fyrstu greiðslu af endurgreiðslu sinni á þeim styrk sem hann þáði frá tveimur fyrirtækjum fyrir nokkrum árum, og ekki þarf að rekja fyrir fólki, svo vandlega sem fréttamenn endurtóku þá málavexti dag eftir dag undir lok síðustu kosningabaráttu. Eins og Vefþjóðviljinn sagði þá, finnst blaðinu það hafa verið verulegt dómgreindarleysi hjá þeim sem stóðu að því að þiggja þessa styrki fyrir hönd flokksins, skömmu eftir að hafa tekið þátt í að setja lög sem banna viðtöku slíkra en rétt áður en þau tóku gildi. Það var því ekki ólöglegt að taka við styrkjunum og vitaskuld engin lagaleg skylda á flokknum að endurgreiða styrkina, þó hann hafi ákveðið að gera það.
Álitsgjafar segja ekki orð um að Sjálfstæðisflokkurinn ákveði ótilneyddur að greiða 55 milljónir króna. En hafa sumir ýmis orð um að flokkurinn ákveði ekki líka að greiða dráttarvexti af upphæðinni – eins og um vanskilaskuld sé að ræða.
En ef einhver heldur að það hafi verið pólitísk nauðsyn að skila styrkjunum, þá er það hreinlega ekki svo víst. Eins og fjölmiðlar hömuðust dag eftir dag eftir dag, á bæði aðal- og aukaatriðum málsins, gagnvart Sjálfstæðisflokknum, og af ekki minni krafti eftir að tilkynnt var um endurgreiðslu styrkjanna, þá er ekki víst að áhrif styrkjamálsins hefðu orðið að nokkru marki verri fyrir flokkinn þó hann hefði ekki ákveðið að borga 55 milljónir króna til kröfuhafa þessara fyrrverandi styrkveitenda sinna. Styrkjamálið kostaði flokkinn einfaldlega gríðarlegt fylgi og, ásamt rýtingsstungunni sem kennd er við öfugmælið „sammala“ – öfugmæli því áróðursherferðinni sem farin var í þess nafni var ætlað að ala á sundrungu og kljúfa hluta sjálfstæðismanna frá flokki sínum og yfir til Samfylkingarinnar – réði miklu um kosningaósigur flokksins. Ekki er víst að sú ákvörðun að borga til baka hina löglegu en óeðlilegu styrki hafi í raun breytt miklu.
Þá hefði Sjálfstæðisflokkurinn, ef hann hefði viljað komast hjá því að borga styrkina til baka, getað bent á að núverandi forysta flokksins hefði ekki haft hugmynd um þessa styrki, hvorki leitað eftir þeim né þegið; að fyrirtækin sem veittu styrkina heyrðu nú sögunni til og í þriðja lagi að styrkirnir væru tvímælalaust á almennu vitorði. Ekki væri því fyrir hendi hin hefðbundna aðstaða, hættan á því að óeðlileg fyrirgreiðsla kæmi á móti styrkjunum.
Með þessu er alls ekki sagt að ekki hafi verið rétt að afsala sér þessum fráleitu styrkjum. Það eina sem sagt er, er að ekki sé víst að á því hafi verið pólitísk nauðsyn. Ekki skilar Samfylkingin sambærilegum styrkjum frá fyrirtækjum „útrásarvíkinganna“ og „fréttamenn“ ræða það ekki einu sinni. Ef menn horfa einungis á pólitískan veruleika en ekkert annað, þá er forvitnileg spurning hvað Sjálfstæðisflokkurinn fær í raun fyrir 55 milljóna króna greiðslu sína. Ekki ætlar Samfylkingin að endurgreiða krónu og hefur hún þó viðurkennt að hafa fengið 25 milljónir króna frá fyrirtækjum eins og sama „útrásarvíkingsins“. Er það ekki fyllilega sambærilegt við umrædda styrkina tvo sem Sjálfstæðisflokkurinn tók við? Samt heyrist ekki orð um endurgreiðslu þar, með eða án vaxta.
Og hvort kröfuhafar þessara hrundu fyrirtækja eru endilega réttastir viðtakendur peninganna er svo enn annað mál.