Laugardagur 23. maí 2009

143. tbl. 13. árg.

Þ

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Við töpuðum fylgi 2003, vegna fjölmiðlafrumvarpsins 2004.

að er gaman að hafa alltaf eitthvað til að kenna um hvernig fer. Þannig reyndu sumir að útskýra fylgistap Sjálfstæðisflokksins í kosningunum i vor með því að afgerandi meirihluti flokksmanna hafi ráðið stefnu hans í Evrópumálum, en ekki hávær en fámennur minnihluti. Kenningin er þá sú, að hinn fámenni minnihluti hafi hlýtt ritstjórum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins og ekki kosið flokkinn eftir að hafa orðið undir – og hlýtur kenningin þá jafnframt að gera ráð fyrir því, að öðru máli hefði hins vegar gegnt um meirihlutann, ef hann hefði verið þvingaður til að taka upp stefnu meirihlutans; að þá hefði enginn hætt við að kjósa flokkinn.

Sumir ganga enn lengra í stjórnmálaskýringum og hafa sökudólga á reiðum höndum, hvað sem gerist. Þannig sat núverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins í sjónvarpsþættinum Silfri Egils daginn eftir kosningarnar í vor, og fór þar yfir söguna: „Aðeins að Sjálfstæðisflokknum, það er alltaf talað um 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Á 4 ára fresti þá fórum við út og töluðum við fólkið, þá töluðum við, ræddum við það, þurftum að kynna fyrir hvað við stæðum, 95, 99 er stórsigur. 2003, þá bíðum við, þá gefur á bátinn meðal annars út af fjölmiðlafrumvarpinu, síðan 2007 vinnum við stórsigur, það er ekki þannig við við höfum bara farið út og tekið valdið í 18 ár, ekki talað við kóng né prest.“

Svo þannig var þetta. Það gaf á bátinn 2003, og það vefst nú ekki fyrir varaformanninum og menntamálaráðherranum fyrrverandi hvers vegna það var. Jú viti menn, vegna fjölmiðlafrumvarpsins. Og þarna sátu með henni pólitískir nýgræðingar eins og Össur Skarphéðinsson, Ögmundur Jónasson og Siv Friðleifsdóttir, að ógleymdum stjórnanda þáttarins, og ekkert þeirra gerði athugasemd, eins og til dæmis þá að fjölmiðlafrumvarpið var lagt fram vorið 2004. Auðvitað vita menn eins og Ögmundur og Össur hvenær baráttan um fjölmiðlafrumvarpið var háð, á Alþingi, í fjölmiðlum og á Bessastöðum. En þeim hefur líklega bara þótt svo ánægjulegt að heyra varaformann Sjálfstæðisflokksins kenna þessu frumvarpi um fylgistapið 2003 að þeir létu gott heita.

En svona er íslensk þjóðmálaumræða. Það er bara einhverju haldið fram og enginn gerir svo neitt með það. Á því eru reyndar undantekningar, því einn og einn maður hefur þá sérstöðu að íslenskir fréttamenn fara í hópum að reyna að hnekkja hverju sem þeir kunna að segja opinberlega, en meginreglan er sú, að menn geta sagt hvað sem er og það þykir bara smámunasemi að eltast við það.

Og mætti Vefþjóðviljinn þá enn vekja athygli lesenda sinna á fjölmiðlabókum Ólafs Teits Guðnasonar, sem fást í Bóksölu Andríkis. Þar er farið vandlega yfir vinnubrögð íslenskra fjölmiðlamanna og dregin fram rökstudd dæmin um ævintýralega hlutdrægni þeirra. Og bækurnar halda gildi sínu fullkomlega þó tíminn líði frá útkomu þeirra. Ef þátttakendur í kosningasilfri Egils hefðu nýlega lesið Fjölmiðla 2004 þá er ekki víst að því hefði eins auðveldlega verið haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefði misst fylgi 2003 vegna fjölmiðlafrumvarpsins 2004. Í þeirri bók er nú meðal annars farið yfir baráttuaðferðirnar sem beitt var vegna þess frumvarps, og ekki síður hvernig fréttamenn gerðu sitt besta til að fela þá staðreynd að nokkrum vikum síðar mættu 43000 manns á kjörstað til að greiða Ólafi Ragnari Grímssyni ekki atkvæði í forsetakosningum, en mótframbjóðendur hans það ár voru, eins og menn muna, engir aðrir en þeir Baldur Ágústsson og Ástþór Magnússon Wium.