Föstudagur 22. maí 2009

142. tbl. 13. árg.

S tóryrtur framhaldsskólakennari af nafni Hálfdán Örnólfsson skrifar grein sem Morgunblaðið birtir á miðopnu í morgun. Þar segir hann meðal annars að „eftir tveggja áratuga leiðsögn öfgafullra frjálshyggjumanna og ránskap í skjóli þeirra er efnahagur þjóðarinnar í slíkri rúst að annað eins hefur ekki sést á byggðu bóli síðan í kreppunni miklu.“

Ef þetta væru tveir áratugir sem liðu undir leiðsögn öfgafullra frjálshyggjumanna væri vinstri stjórnin 1988 – 1991 talin með en varla getur það verið. Þessi leiðsögn frjálshyggjunnar var heldur ekki rækilegri en svo að útgjöld hins opinbera til allra svonefndra velferðarmála, menntamála og heilbrigðismála snarhækkuðu á undanförnum árum. Þegar leiðsögn hinna öfgafullu frjálshyggjumanna lauk síðasta haust höfðu tekjur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu verið þær hæstu nokkru sinni í sögu lýðveldisins tvö árin þar á undan. Í grófum dráttum hækkuðu tekjur og gjöld hins opinbera úr 35% í 45% af vergri landsframleiðslu á síðustu tuttugu árum. Þrátt fyrir að landsframleiðslan hækkaði mjög verulega á þessu tímabili. Á síðari hluta þessa tímabils tryggði íslenska ríkið sér heimsmetið í greiðslu velferðarbóta til efnafólks þegar tekjutengt fæðingarorlof var samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi. Tónlistarhús úr öllu vitrænu samhengi tók að rísa, menningar- og íþróttahúsum var dritað um land allt, göt boruð á fjöll sem aldrei fyrr og ríkið hóf að lána fólki fyrir 90% af kaupverði húsnæðis.

Hvernig hefði þetta eiginlega verið ef öfgafullir frjálshyggjumenn hefðu ekki haft öll ráð í hendi sér? Hefðu útgjöld hins opinbera farið yfir 50% af landsframleiðslunni ef hófsamir frjálshyggjumenn hefðu haldið um stýrið í stað þeirra öfgafullu? Yfir 90% ef vinstri grænir hefðu ráðið för?