Fimmtudagur 21. maí 2009

141. tbl. 13. árg.

E ftir bankahrunið síðasta haust varð hávær umræða um að á Íslandi hefðu bara engar reglur verið um fjármálastarfsemi. Andríki leyfði sér í kjölfarið að benda á það í blaðaauglýsingum að hér hefði verið mýgrútur laga og reglna um þau efni. Dugði ekki minna en heilsíðuauglýsing með örletri til að koma heiti helstu lagaboðanna fyrir. Það eru engar ýkjur að menn hafi reynt að setja reglur um hvern krók og kima fjármálamarkaða.

Síðan má segja að umræðan hafi breyst í þá veru að hér hafi jú verið reglur en það hafi bara ekki verið farið eftir þeim og eftirlitið hafi verið lítið sem ekkert. Þó er það staðreynd að hér voru og eru ýmsar eftirlitsstofnanir með atvinnulífinu, flestar að fyrirmælum Evrópusambandsins enda að fylgja eftir reglum sem þar eru reiddar fram í gríð og erg. Sem dæmi má nefna fjármálaeftirlitið og samkeppnisstofnun sem heyrðu undir ráðherrana Valgerði Sverrisdóttur, Jón Sigurðsson og Björgvin G. Sigurðsson áratuginn fyrir bankahrunið. Kostnaður við þessar stofnanir hefur snarhækkað á síðustu árum en af umræðunni að dæma mætti jafnvel ætla að framlög til þeirra hafi verið skorin niður við trog.

Á síðustu árum hafa ýmsar áhugaverðar hugmyndir um að draga úr boðum og bönnum ríkisins en treysta einstaklingum og félögum þeirra í auknum mæli til að setja sér sínar eigin reglur. Þær eru meðal annars studdar þeim sígildu rökum að stjórnmála- og embættismenn skorti þekkingu til að setja reglur um öll smáatriði, nýjungar og tækniþróun geri verkefnið óraunhæft, sérhagsmunahópar hafi alltaf mest áhrif á reglunar og síðast en ekki síst geti reglugerðafargan verið verulegur dragbítur á nýsköpun.

Bókin Simple Rules for a Complex World eftir Richard A. Epstein lagaprófessor við Chicago háskóla er ágætt dæmi um hugmyndir í þessa veruna en hún kom út árið 1995.

Því miður fara margir að flissa þegar nefndar eru hugmyndir sem þessar og telja það hálfgert grín að fyrirtæki setji sér sjálf reglur. En flest fyrirtæki gera þetta auðvitað að einhverju marki. Mörg framleiðslu- og tæknifyrirtæki undirgangast sjálfviljug staðla og eftirliti annarra fyrirtækja til að auka álit væntanlegra viðskiptavina á sér.

Þessar hugmyndir hafa aldrei átt betur við en nú þegar fjármálakerfi heimsins hefur oltið ofan úr hengirúmi reglugerðaríkisins og lent harkalega á skattgreiðendum. En svo virðist sem ýmsir telji að þótt allar reglurnar hafi brugðist þurfi bara að setja fleiri og viðameiri. Súpan er feikn bragðvond en svo naumt skömmtuð.

Menn geta velt því fyrir sér hvort ekki hefði verið meira vit í því að fjármálafyrirtæki hefðu sjálf veg og vanda að innlánstryggingum sínum í stað þess að Evrópusambandið sendi einhverja hrákasmíð um efnið í pósti til Íslands. Rænulaust Alþingi leiddi sendinguna svo í lög til þess eins að Evrópusambandið gæti túlkað þau að vild þegar til kastanna kom.