Miðvikudagur 20. maí 2009

140. tbl. 13. árg.

Þ essu blaði hafa ekki gefist mörg tilefni til að hrósa Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar. En eitt slíkt hefur nú gefist og raunar ekki af verri endanum. Þórunn hefur nú lýst opinberlega þeirri skoðun sinni að óverjandi sé að halda áfram byggingu tónlistarhússins við höfnina í Reykjavík, svo feiknarlega dýrt sem það yrði að halda þeirri framkvæmd áfram.

Hér er Vefþjóðviljinn sammála Þórunni, eins og ekki þarf að koma á óvart. Það er verulegt fagnaðarefni ef skynsemisraddir taka loksins að heyrast í þessu máli frá stjórnarliðinu og vonandi að fleiri þingmenn taki af skarið í sömu veru.

Auðvitað munu fréttamenn hins vegar lítið gera með þessa yfirlýsingu ráðherrans fyrrverandi, en það kemur engum á óvart.

Kostnaður við tónlistarhúsið hefur margfaldast á undanförnum árum og stefnir nú vel yfir tuttuguþúsund milljónir króna. Jafnvel í núverandi efnahagsástandi virðast stjórnmálamenn ætla að setja fjórtánþúsund milljónir til viðbótar við það sem þegar er farið, og tala í hinu orðinu um skattahækkanir sem leggjast bæði á almenna borgara og atvinnufyrirtækin í landinu.

Það er verulega brýnt að stöðva tónlistarhússbrjálæðið. Bæði vegna þess að nú þarf að spara og skera niður óendanlegra brýnni hluti en lúxussali fyrir menningarelítuna. En ekki síður vegna þess að niðurstaðan um tónlistarhúsið sendir ákaflega skýr skilaboð um ríki, borg og frekju sérhagsmunanna. Spurningin er: Mun þessum einstaklega freka sérhagsmunahópi takast að þvinga tugmilljarða hús út úr skattgreiðendum, eða ekki? Ef menn ætla að snúa af eyðslubraut ístöðulítilla stjórnmálamanna þá er algert lykilatriði að frekjur menningarelítunnar vinni hér ekki sigur á skattgreiðendum.

Hér verða allir frjálslyndir menn að halda baráttunni áfram.

Ætla þingmenn Sjálfstæðisflokksins að láta það um sig spyrjast að þeir taki brjálaðri afstöðu til þessa máls en meira að segja Þórunn Sveinbjarnardóttir?