Þriðjudagur 19. maí 2009

139. tbl. 13. árg.

S máatriði úr þingumræðum gærkvöldsins; ekki mikilvægt heldur dæmigert. Háttvirtur þingmaður Þór Saari hélt þar ræðu fyrir hönd þjóðarinnar og ræddi stoltur um fyrstu árásirnar á alþingishúsið í janúar síðastliðnum. Að sjálfsögðu taldi Þór að þar hefði „þjóðin“ ráðist á eigið alþingishús, og spurði svo hvað þingmenn hefðu hafst að á meðan. Og Þór svaraði sjálfum sér: „Þeir ræddu fram og aftur um sprúttsalafrumvarp Sjálfstæðisflokksins“.

Hér vísar Þór til frumvarps Sigurðar Kára Kristjánssonar um heimild til matvöruverslana til að selja léttvín. En gallinn á þessum fullyrðingum Þórs Saaris er sá, að frumvarp Sigurðar Kára var raunar alls ekki rætt þennan myrka janúardag, heldur var það tekið af dagskrá að ósk Sigurðar Kára sjálfs. Sú staðreynd hindrar auðvitað ekki Þór Saari í að fullyrða úr ræðustóli alþingis í sjónvarpaðri ræðu að þingmenn hafi rætt frumvarpið „fram og aftur“ meðan þingið hafi verið undir árásum.

Þetta er örlítið dæmi um opinbera umræðu á Íslandi. Það er bara einhverju haldið fram og smám saman verður það að staðreynd í huga sumra. Hversu oft slá ekki allskyns álitsgjafar því fram að eitthvað sé sagt hafa gerst, eða að einhver sé sagður hafa sagt eitthvað einhvers staðar, og endurtaka svo sjálfir eigin kenningar skömmu síðar, en þá er fyrirvarinn horfinn og staðleysan orðin að staðreynd.

Og hverjar telur „Borgarahreyfingin“, flokkur siðvæðingarinnar, að eigi að vera afleiðingarnar fyrir þingmann sem fer með ósannindi, þó í litlu sé, á alþingi? Nú kemur það í ljós. Og vill einhver giska á hve margir fréttamenn munu nefna þetta einu orði?

R íkissjónvarpið sló því upp sem fyrstu frétt í gær, framar en að ríkisbanki yfirtæki Flugleiðir, að þýskur banki kynni að eignast áberandi fasteignir eins og Kringluna og Holtagarða, „ef ekki tækist að tryggja rekstur“ núverandi eigenda þeirra, sem einmitt stendur núna í samningaviðræðum vegna skulda sinna.

Því miður sagði fréttastofa Ríkisútvarpsins ekki hvers vegna það væri stórmál að þýskur banki eignaðist þessar fasteignir. Ætli fréttastofan búist við að einn daginn verði Kringlan flutt til Berlínar og bara grunnurinn eftir?

RR íkisstjórnin boðaði við valdatöku sína stórfellt aðhald og sérstaklega skyldu ferðalög spöruð. Tveimur dögum síðar var ráðherrum smalað á fund Akureyri og tók tvo daga að selflytja hinn mikilvæga farm. Í dag heldur Katrín Jakobsdóttir erindi á áríðandi málþingi um tölvuleiki í Málmhaugum í Svíþjóð.