Mánudagur 18. maí 2009

138. tbl. 13. árg.

Í

Birgitta Jónsdóttir. Þjóðin á ekki rétt á þeim upplýsingum sem hæstvirt ríkisstjórn hefur ekki prófarkalesið.

síðustu viku boðuðu forkólfar ríkisstjórnarinnar forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna til sín, og kynntu þeim þá tillögu sem ákveðið hefði verið að leggja fyrir alþingi um inngöngu í Evrópusambandið. En þó þetta sé að sögn forsætisráðherra mikilvægasta mál ríkisstjórnarinnar og landsins, þá var tillagan sýnd stjórnarandstöðuleiðtogunum í trúnaði. Þeim var bannað að segja almenningi hvernig tillagan liti út.

Tveir þeirra, formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, lýstu strax furðu á því að ekki mætti segja landsmönnum hvernig tillaga um inngöngu landsins í erlent ríkjasamband hljómaði. En fulltrúi þriðja „stjórnarandstöðu“-flokksins, Birgitta Jónsdóttir frá „Borgarahreyfingunni“, sagði á hinn bóginn eftir fundinn að hún væri alveg sátt við að tillagan væri leyndarmál, því ríkisstjórnin væri ekki búin að prófarkalesa hana.

Borgarahreyfingin hefur setið á þingi síðan á föstudaginn. Hún er strax orðin svo upptekin af því að ekkert hendi ríkisstjórnina sem gæti kallað á stjórnarslit, kosningar og stólamissi þingmanna Borgarahreyfingarinnar, að henni finnst allt í lagi að landsmenn fái ekki upplýsingar um hvorki meira né minna en tillögu um inngöngu í Evrópusambandið, fyrst hæstvirt ríkisstjórn var ekki búin að prófarkalesa hana. Enginn fréttamaður gerði athugasemd eða setti þetta nýja umburðarlyndi í neitt samhengi.

En hvernig hefði verið látið ef fyrri ríkisstjórn hefði neitað „þjóðinni“ um upplýsingar, og borið fyrir sig prófarkalestri?

Ó lafur Ragnar Grímsson sagði við þingsetningu að með þingrofi og kosningum hefði „þjóðin“ tekið í sínar hendur þau völd sem henni bæri, og því yrðu allir að hlíta. Jájá, en úr því Ólafur Ragnar er svona ánægður með að „þjóðin“ hafi fengið eigin völd í hendur, þá má vekja athygli á því að á einu sviði hefur „þjóðin“ ekki enn fengið völd sín í hendur. Útrásarforsetinn var svo stálheppinn, að kjörtímabil hans hófst tveimur mánuðum áður en bankarnir, sem þá voru einmitt nýbúnir fjármagna ævisögu hans, fóru í þrot. „Þjóðin“ hefur því ekki enn fengið í hendur völd sín yfir forsetaembættinu. En því getur Ólafur Ragnar hæglega breytt. Hann þarf ekki annað en að segja af sér embætti og þá verður efnt til nýrra forsetakosninga. Þar gæti hann boðið sig fram og leitað stuðnings við áframhaldandi setu sína. En hann getur líka tekið hinn kostinn og ákveðið að „þjóðin“ skuli bíða til 2012 eftir því að fá völdin yfir forsetaembættinu í sínar hendur. En fram að því geti hún stytt sér stundir við að hlusta á hástemmdar ræður um valdatöku þjóðarinnar, milli þess sem forsetinn myndar minnihlutastjórnir vinstriflokkanna, án þess einu sinni að reyna að mynda meirihlutastjórn, eins og stjórnskipunarvenjurnar bjóða.

Já og enn hefur svonefnd „fréttastofa“ Ríkisútvarpsins ekki séð ástæðu til að segja áhorfendum sínum frá þeim fregnum sem annars staðar voru sagðar af persónulegum aðgerðum forsetans við að tryggja að vinstristjórn kæmist til valda í landinu í ársbyrjun. Það þykir ekki fréttnæmt á þeim vinstribænum.

F réttamenn slepptu því í gær að reyna að giska á hversu margir mættu á Austurvöll til að fagna íslensku tónlistarmönnunum eftir Rússlandsför þeirra. Enda ekki vel gott fyrir þá að koma með tölur núna, eftir að hafa meira en tuttugusinnum gagnrýnislaust endurómað talningar Harðar Torfasonar, í látlausu kynningarstarfi sínu vegna Austurvallarfunda hans síðastliðinn vetur. Sennilega hefði verið einfaldast og viðhaldið eðlilegu samhengi að fá bara Hörð til að telja í gær líka. Hann hefði byrjað í tíuþúsund og endað í svona hálfri milljón.