Helgarsprokið 17. maí 2009

137. tbl. 13. árg.

Þ eir eru margir sem hver á sinn hátt hafa lagt Andríki lið við útgáfu Vefþjóðviljans á undanförnum árum. Fyrir sjö árum hófst ein slík liðveisla með lifrarpylsusneið á eldhúsgólfi tveggja þeirra sem setið hafa í ritstjórn Vefþjóðviljans. Upp frá því varð ekki aftur snúið. Síðan hefur lítið dýr, stór snæhvítur köttur, minnt þessa og fleiri ritstjórnarmenn á margt af því besta í lífinu; sjálfsprottna vináttu, tryggð og höfðingsskap.

Þótt gestir og gangandi nytu allir tryggðarinnar birtist höfðingsskapurinn aldrei betur en þegar nýir heimilismenn mættu til leiks. Virðingin var undanbragðalaus. Viðbrögðin við sárum gráti ungabarns lýstu áhyggjum sem hefði ekki verið betur lýst með orðum. Tæpra fjögurra ára stelpa ber heldur engin merki eftir dýrið með flugbeittu klærnar sem kúrði hjá henni  frá fyrsta degi á milli þess sem það veiddi mýs og fugla til miðdags og barðist við ferfætta ættingja sína um bakgarða.

Það er sennilega engin tilviljun að það er köttur sem hefur haft þessi áhrif á ritstjórnarmenn Vefþjóðviljans. Um þessi dýr Vefþjóðviljinn áður sagt:

Kötturinn er ekki aðeins liðugur og lipur við veiðar. Frá landnámi Íslands hefur íslenska heimiliskettinum einnig tekist að smeygja sér framhjá nær öllum opinberum afskiptum, boðum, bönnum, sektum, framleiðslukvótum, niðurgreiðslum, beingreiðslum, lögboðinni skráningu, merkingu og skattlagningu sem aðrar skepnur landsins hafa mátt þola. Honum tókst í raun í árþúsund það sem landnámsmönnum auðnaðist aðeins í fáein árhundruð; að fá smá frið fyrir yfirvaldinu.

Það er auðvitað stórmerkilegt að í yfir þúsund ár hefur íslenski heimiliskötturinn undantekningarlítið farið frjáls ferða sinna inn og út úr híbýlum manna í góðu samkomulagi við heimilisfólk sitt. Hann hefur haft sína hentisemi en um leið bægt frá meindýrum á heimilum og útihúsum. Því til viðbótar er hann þeim sem það líkar ómetanlegur félagsskapur. Betri ábreiða á köldum vetrarkvöldum en malandi heimilisköttur er vandfundin.

Já þetta hefur bara gengið bærilega takk fyrir í yfir þúsund ár án þess að setja þurfi reglur um málið og þinga um það í opinberum nefndum.

Því miður veittu einhverjir vel meinandi sveitarstjórnarmenn því hins vegar athygli fyrir nokkrum árum að þarna væru lifandi verur sem færu um án afskipta kjörinna fulltrúa. Í kjörfarið fylgdu svo ævintýralegar reglur og eftirlit að erindið um köttinn út í mýri sem sett upp á sér stýri varð skyndilega viðeigandi og skiljanleg. Fyrsta skrefið var skráning hjá yfirvöldum en það er einnig fyrsta skrefið að auknu eftirliti og skattheimtu.

Vefþjóðviljinn hefur oft bent á að frjáls markaðurinn er ekki og verður aldrei fullkominn. Honum er heldur ekki ætlað að vera það. Þess vegna eigi menn ekki að rjúka upp til handa og fóta þegar frjáls markaður skilar ekki niðurstöðu sem er öllum að skapi. Menn þurfa að reka sig á til að læra. Með slíku inngripi yfirvalda hættir hann líka að vera frjáls en það er einmitt eftirsóknarverðasti hluti hans.

En kannski kemst gott samband manns og kattar nærri því að vera dæmi um fullkomnun á frjálsum markaði. Gagnkvæmir hagsmunir fara fáránlega vel saman án þess að til sé eitt sameiginlegt orð, hvað þá sameiginleg mynt, regluverk eða fagleg úttekt og umhverfismat. Þetta bara gerist.

Atli Harðarson heimspekingur skrifar nokkuð um sjálfsprottið skipulag í bók sinni Af jarðlegum skilningi. Þar vitnar hann í Law, Legislation and Liberty eftir Friedrich August von Hayek:

Að til séu kerfi þar sem við getum hvorki lesið neina merkingu úr einstökum hlutum, greint neitt skipulag né gert okkur grein fyrir ástæðum þess sem gerist, að slík kerfi séu traustari grundvöllur undir árangursríka sókn að markmiðum okkar heldur en stofnanir sem hafa verið skipulagðar vísvitandi, að breytingar sem enginn veit hvers vegna verða geti verið okkur í hag (því framvindan nemi staðreyndir sem enginn hefur yfirsýn yfir) – allt þess er svo algerlega andstætt þeirri rökhyggju sem hefur verið ríkjandi í evrópskri hugsun síðan á sautjándu öld að það öðlast vart viðurkenningu fyrr en menn hallast á sveif með gangrýninni gerð og skynsemishyggju og þróunarhyggju og gera sér ekki aðeins ljósan mátt skynseminnar, heldur líka takmörk hennar og skilja að hún hefur þróast með samfélaginu.

Lagt á ráðin um afmælispistil Vefþjóðviljans 2004. Jesús köttur 12. ágúst 2001 – 16. maí 2009.