Helgarsprokið 24. maí 2009

144. tbl. 13. árg.

U m þessar mundir er þess minnst að hinn litríki íhaldsmaður, Boris Johnson, hefur gegnt starfi borgarstjóra Lundúna í eitt ár. Í vikublaðinu Spectator er bent á að fyrsta ár nýja borgarstjórans hafi verið nokkuð slétt og fellt, hann hafi hvorki unnið mikla sigra né orðið fyrir stóráföllum. Það geti í sjálfu sér talist góður árangur þegar haft er í huga að Lundúnabúar glíma nú við mestu kreppu í 75 ár. Raunar grínast dálkahöfundur Spectator, Ross Clark, með að á síðustu tólf mánuðum hafi kreppan einmitt dregið úr helstu vandamálum Lundúnabúa. Dregið hafi úr umferð, húsnæðisverð hafi lækkað og hægt sé að fá borð á góðum veitingastað samdægurs í stað þess að panta með sex mánaða fyrirvara.

Boris er þekktur fyrir einlæga og opinskáa framkomu og stóryrtar yfirlýsingar sem oftar en ekki hitta í mark. Hann er hvort tveggja í senn; frjálshyggjumaður og íhaldsmaður. Boris styður frjálst markaðshagkerfi en leggur ríka áherslu á að því frelsi ,,fylgi ábyrgð“ eins og það er kallað. Hann er að mörgu leyti nýjungagjarn og hyggst nota borgarstjóraembættið til að knýja fram breytingar á ýmsum sviðum þar sem þörf er á, en aðhyllist ekki breytingar, breytinganna vegna. Hann vill efla á ný gömul gildi í þjóðfélaginu, sem hafa látið undan síga á undanförnum árum og áratugum, og vísar þá gjarnan til bankakerfisins, menntakerfisins og almannareglu.

,,Spectator bendir á að í raun sé afar lítið fjallað um mesta afrek Borisar, nefnilega það að hann hafi lækkað álögur á Lundúnabúa án þess að draga úr þjónustu svo nokkru nemi. Þetta hefur hann gert með frystingu útsvarsprósentu á sama tíma og skattstofnar hafa skroppið saman og tekjur borgarinnar lækkað verulega. Þessu tekjufalli hefur borgarstjórn Lundúna, undir forystu íhaldsmanna, mætt með sparnaði og hagræðingaraðgerðum í stað aukinnar skattpíningar borgaranna.“

Boris verður seint óumdeildur og sitt sýnist hverjum um verk hans og yfirlýsingar. Þótt hann sé skilgreindur frjálshyggjumegin í Íhaldsflokknum, hefur hann sett fram ýmsar hugmyndir, til dæmis í umhverfismálum, sem seint munu vera taldar í anda frjálshyggju. Þótt Boris starfi á vettvangi borgarstjórnar Lundúna er ljóst að hann hefur náð eyrum kjósenda á landsvísu. Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun er hann þekktari meðal almennings en David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins og eru ýmsir farnir að spá því að Boris verði framtíðar-leiðtogaefni íhaldsmanna.

Ýmsir andstæðingar Boris reyndu að gera lítið úr honum í kosningabaráttunni fyrir ári, sögðu hann jafnvel vera trúð sem myndi klúðra öllu sem hann kæmi nálægt ef svo ólíklega færi að hann bæri sigurorð af Ken Livingstone, þáverandi borgarstjóra. Andstæðingar Boris eru hættir að vanmeta hann og viðurkenna margir að hann hafi náð árangri á ýmsum sviðum þrátt fyrir stuttan valdatíma. Boris hefur m.a. látið löggæslumál og almannareglu mjög til sín taka og eitt fyrsta verk hans var að banna drykkju áfengis í lestum og strætisvögnum. Hann hefur fjölgað lögregluþjónum í almenningssamgöngukerfinu og hert baráttuna gegn smáglæpum, til dæmis vasaþjófnaði og farmiðasvindli. Þessar aðgerðir hans, sem njóta víðtæks stuðnings Lundúnabúa, hafa nú þegar skilað þeim árangri að glæpum hefur fækkað og farþegum finnst þeir vera öruggari í samgöngukerfi borgarinnar.

Boris er afar gagnrýninn á breskt menntakerfi og segir mikilvægasta viðfangsefni breskra stjórnmála nú um stundir sé að efla menntun þar sem of margir ljúki skólagöngu sinni án viðunandi undirstöðu í lestri, skrift og stærðfræði. Og hann svarar að bragði þegar Spectator spyr hann hvernig hann vilji bæta úr þessu: ,,Meiri hljóðlestur, læra margföldunartöfluna utan bókar, fleiri karlkyns kennara, samkeppni í námi, víðtæk eyðilegging Plastation-leikjatölva og allir læri tvö ljóð á misseri.“

Borgarstjórinn hefur áhyggjur af því að bilið sé að breikka á milli einkaskóla og opinberra skóla og það segi allt sem segja þurfi að hinar ráðandi stéttir í Englandi treysti opinberum skólum ekki lengur fyrir menntun barna sinna heldur sendi þau í einkaskóla. Til að ráða bót á þessu þurfi að auka rekstrarlegt og faglegt sjálfstæði opinberra skóla og gera menntaskólum kleift að velja sér nemendur, til dæmis á grundvelli einkunna.

Boris býr yfir ótal hugmyndum um það hvernig megi bæta líf Lundúnabúa og margar þeirra snúast um að gera borgina ,,grænni“. Þannig hefur hann þegar reynt, líkt og borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík, að efla hjólreiðar og laga samgöngukerfi að þörfum hjólreiðamanna, ekki síður en bílstjóra. Segist hann helst vilja bræða niður málmgirðingarnar, sem lengi hafa verið einkennandi fyrir borgina, og smíða reiðhjól úr þeim. Hann hefur gert átak í gróðursetningu trjáa og hafið úrbætur á opnum og grænum svæðum í þágu útivistar og heilsuræktar fyrir almenning.

Spectator bendir á að í raun sé afar lítið fjallað um mesta afrek Borisar, nefnilega það að hann hafi lækkað álögur á Lundúnabúa án þess að draga úr þjónustu svo nokkru nemi. Þetta hefur hann gert með frystingu útsvarsprósentu á sama tíma og skattstofnar hafa skroppið saman og tekjur borgarinnar lækkað verulega. Þessu tekjufalli hefur borgarstjórn Lundúna, undir forystu íhaldsmanna, mætt með sparnaði og hagræðingaraðgerðum í stað aukinnar skattpíningar borgaranna. Fari svo að Cameron verði forsætisráðherra Bretlands eftir næstu þingkosningar er hann hvattur til þess af dálkahöfundi Spectator að læra af borgarstjóranum í Lundúnum.

Kannski má segja að Boris sé á sömu braut og meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í borgarstjórn Reykjavíkur undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra. Eins og kunnugt er, hefur borgarstjórnarmeirihlutinn ákveðið að halda útsvarsprósentunni óbreyttri, í 13,03%, þrátt fyrir að leyfilegt hámark væri um siðastliðin áramót hækkað í, 13,28%. Það sjónarmið hefur væntanlega meðal annars ráðið að almenningur yrði fyrir nægum búsifjum vegna efnahagssamdráttar þótt útsvarshækkun bættist ekki við. Borgarfulltrúar Samfylkingar og vinstri grænna telja hins vegar að fjármunum almennings sé best borgið í höndum stjórnmálamanna og hafa gagnrýnt borgarstjórnarmeirihlutann ótæpilega fyrir að hækka ekki útsvarið. Það er að vísu nokkur sárabót fyrir skattasinna að nú er tekin við völdum mesta vinstri stjórn í sögu lýðveldisins sem mun vafalaust ekki bíða boðanna með að hækka skatta og aðrar álögur á fólk og fyrirtæki svo um munar.