Þriðjudagur 31. mars 2009

90. tbl. 13. árg.

M orgunblaðið greindi frá því á forsíðu í síðustu viku, að Gylfi Magnússon, hinn elskaði viðskiptaráðherra ómenntaðra Íslendinga, hefði „ekki alltaf legið yfir bókum eða sinnt kennslustörfum“. Nei gott fólk, þessi alþýðlegi maður hefði einnig borið út blöð, unnið í vegavinnu og aðstoðað tannlækni. Inni í blaðinu var þessum upplýsingum fylgt eftir með viðtali við Gylfa um fyrri störf hans, og kennir þar ýmissa grasa en auk þess sem hér hefur verið talið var Gylfi til dæmis einnig í sveit eitt sumar og keyrði dráttarvél „af miklum móð“.

Þetta er allt gott og blessað. Það er samt magnað að fjölmiðlar taki viðtöl og kynni á forsíðu að viðskiptaráðherrann hafi borið út blöð og verið í sveit, en hafi enn ekki séð ástæðu til að segja neinum frá því, heldur nýrra framlagi hans til þjóðfélagsins, er hann sat í dómnefnd útflutningsverðlauna forseta Íslands og ákvað að veita Kaupþingi verðlaunin fyrir öfluga útrás og ævintýralegan vöxt. Þó Gylfi hafi á síðustu vikum talað spaklega um að vöxtur bankanna hafi verið allt of hraður og útrásin feigðarflan, eins og hann auðvitað sá alltaf fyrir, þá hvarflar ekki að neinum fjölmiðli að segja fólki frá útrásar- og vaxtarviðurkenningu hans til Kaupþings. Hefur nokkur fjölmiðill nema Vefþjóðviljinn talið þetta eiga erindi við Íslendinga? Öðrum fjölmiðlum þykir hins vegar fréttnæmt að Gylfi hafi verið í sveit.

En þetta er eftir öðru. Íslendingar fá ákaflega bjagaða mynd af þjóðmálum ef þeir treysta aðeins á stærstu fjölmiðla landsins.

Og svo enn sé spurt:

Hvenær ætli einhver þeirra segi frá því hvaða þingmaður hefur grætt manna mest á samþykkt „eftirlaunafrumvarpsins“ fræga, „ósómans“ sem vinstrigrænir kalla svo?

Hvenær ætli einhver þeirra rekji ósannindarök Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir flýtisamþykkt seðlabankastjórafrumvarpsins?

Þannig mætti lengi lengi telja upp. Stærstu fjölmiðlar landsins eru nær gagnrýnislausir þegar kemur að ráðamönnum minnihlutastjórnarinnar. Þá er ekkert athugað, ekkert vefengt og aldrei spurt um nein aðalatriði. Óþægilegir hlutir þaggaðir niður eins og hægt er.

Nýlega kom í Bóksölu Andríkis nýjasta fjölmiðla-bók Ólafs Teits Guðnasonar. Það er ómaksins verulega virði að verða sér úti um þær bækur og lesa. Þá skilst kannski betur af hverju það er ekki nema von að svokallað almenningsálit í landinu sé orðið eins og það er.