Mánudagur 30. mars 2009

89. tbl. 13. árg.

Í dag eru 60 ár liðin frá því fyrst var ráðist á alþingishúsið, í þeirri von um að hræða mætti lýðræðislega kjörna alþingismenn til að fara að vilja óeirðamanna en ekki sínum eigin. Var það gert með vitund og vilja þingmanna sósíalista. Eitt af því sem þá varð þingræðinu til bjargar var að ungt fólk stóð hópum saman með lýðræðislega kjörnum yfirvöldum. Heimdellingar söfnuðu liði til að verja þinghúsið og Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, lét ekki sitt eftir liggja.

Á dögunum var að nýju ráðist að þinginu og fleiri opinberum stofnunum. Sendi stjórn Heimdallar þá frá sér ályktun þar sem hún lagði til að ráðherrar og embættismenn létu af stöfum til að skapa frið. Hver á fætur öðrum ráðlagði yfirvöldum að svarið við árásum, uppþotum og gagnrýni væri að „sýna auðmýkt“. Verst af öllu væri að taka til efnislegra varna, því það sýndi bara „skilningsleysi“. Hefur þessi aðferð nú þegar skilað Sjálfstæðisflokknum stjórnarandstöðuhlutverki sem gæti enst næstu árin, og 25% fylgi. Fjölmiðlar, álitsgjafar og yfirlýstir vinstrimenn hafa nú fengið hálft ár til að hamra söguskoðun sína inn í vitund fólks. Það mun taka tímann sinn að andæfa þeim staðleysum sem þessir aðilar hafa nú endurtekið dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, nær mótmælalaust.

J óhanna Sigurðardóttir sagði í ræðu er hún tók við formennsku í Samfylkingunni að hún væri ekki komin til að sitja stutt á formannsstóli. Þeir sem vonuðu það ættu að hafa hugfast að amma hennar hefði starfað í stjórnmálum fram yfir hundrað ára aldur. Ef menn læsu ræðu Jóhönnu með sama einbeitta viljanum til að misskilja, túka á versta veg og horfa aðeins á aukaatriði en sem minnst á það fréttnæma, og ýmsar aðrar ræður eru jafnan lesnar, þá hefði mátt slá því upp í öllum fréttatímum að nýr formaður Samfylkingarinnar ætlaði að sitja í 35 ár.