Helgarsprokið 22. mars 2009

81. tbl. 13. árg.

E dward Chancellor starfar á eignastýringarsviði GMO og er höfundur metsölubókarinnar Devil Take The Hindmost: A History Of Financial Speculation sem kom út árið 1999 og segir eins og nafnið bendir til frá helstu verðbréfabólum sögunnar.

Chancellor skrifaði merkilega grein í Financial Times í júlí á síðasta ári undir yfirskriftinni Central banks’ policies can wreak havoc.

Í greininni segir Chancellor einfaldlega að tilraunir seðlabanka heimsins til að halda verðlagi stöðugu séu rótin að fjármálakrísunni sem þá var skollin á.

Vandamálið er ekki að stöðugt verðlag i sjálfu sér. Verðbólga er auðvitað böl. Og verðhjöðnun samfara niðursveiflu er sársaukafull. Vandamálið verður til þegar peningamálayfirvöld reyna að halda verðlagi stöðugu þrátt fyrir að önnur öfl togi í mótstæða átt. Það er stefnan sem olli bólu í húsnæðisverði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Og nú er hætta á að hún valdi mikilli eyðileggingu í sumum löndum evrusvæðisins.

Hagfræðingar og seðlabankamenn tengja yfirleitt lækkandi verð við Kreppuna miklu og efnahagslega stöðnun Japans síðastliðna tvo áratugi.

Þar af leiðandi reyna þeir ávallt að hindra að verðlag lækki.

Það er misráðið. Stundum eru hagkerfi að hagnast á auknu framboði. Tæknilegar framfarir, aukin framleiðni og aukin heimsverslun eru allt dæmi um aukið framboð sem lækkar verð, að öðru óbreyttu. Almenningur hefur ekkert að óttast völdum þessa, þvert á móti batnar hagur fólks af völdum lækkandi verðs og aukins kaupmáttar.

Samt sem áður standa seðlabankar á móti „góðri verðhjöðnun“ með því að lækka vexti. Sú stefna hefur aukaverkanir, lægri vextir hvetja fólk til aukinnar neyslu og minni sparnaðar.

Lægri vextir eru líka skilaboð til fyrirtækja um að auka fjárfestingu sína. Niðurstaðan er að útlánaþensla hefst og eignaverð tekur að hækka.

Með tímanum veldur aukin eftirspurn eftir takmörkuðum gæðum því að verð tekur að hækka. Áður en yfir líkur neyðist seðlabankinn því til að hækka vexti. Síðan kemur í ljós að of mikið hefur verið fjárfest í sumum hlutum hagkerfisins.

Þegar góðærinu lýkur eru fyrirtæki og heimili of skuldsett miðað við tekjur sínar. Vanskil valda tapi og veikja eiginfjárgrunn banka og gjaldþrotum fjölgar. Bæði lántakendur og lánveitendur verða varari um sig og vilja síður eiga viðskipti.

Chancellor segir svo að eftir því sem lausafjárskorturinn versi dragist peningamagn saman og það sem mætti kalla slæm verðhjöðnun geri vart við sig. Irving Fisher hafi kallað þessa slæmu verðhjöðnun verðhjöðnun vegna skulda. Ekkert af þessu komi á óvart því seðlabankar hafi reynt að hindra verðhjöðnun í uppsveiflunni sem á undan kom.

En þessi skoðun er ekki ný af nálinni eins og Chancellor rekur í grein sinni.

Nokkrum árum fyrir verðbréfahrunið 1929 færði austuríski hagfræðingurinn Friedrich Hayek, sem síðar hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði, rök fyrir því að tilraunir bandaríska seðlabankans til að halda verðlagi stöðugu hefðu skapað útlánaþenslu sem myndi enda með ósköpum. Nýlegra dæmi, er að yfirmenn í seðlabanka Japans, hafa viðurkennt ábyrgð sína bólunni í hagkerfinu á níunda áratugnum. Verðbólga var lág á þeim tíma, þannig að Seðlabanki Japans hélt vöxtum lágum og leyfði útlánum að aukast og eignaverði að hækka. Þá rétt eins og í kjölfar kreppunnar fylgdi verðhjöðnun vegna skulda í kjölfar þess að bankarnir höfðu tapað gríðarlegum fjármunum og fyrirtæki og neytendur urðu tregir til að taka fé að láni.

Síðasta áratug og rúmlega það hefur orðið veruleg aukning á framboði vöru og þjónustu í heiminum í kjölfar byltingar í upplýsingatækni og aukinnar þátttöku Kína og Indlands í heimsbúskapnum.

Þrátt fyrir það fékk verðlag ekki að falla. Þess í stað brást Seðlabanki Bandaríkjanna, undir forystu Alans Greenspan, við með því að halda vöxtum lægri en ella hefði verið.

Þessi stefna leiddi til netbólunnar og síðar bólunnar í fasteignaverði. Ef Seðlabankinn, undir forystu Bernanke hefði ekki gripið til allra ráða á sínu valdi til að halda uppi fjármálakerfinu, væri nú veruleg verðhjöðnun vegna skulda í Bandaríkjunum.

Seðlabanki Bandaríkjanna er ekki eini sökudólgurinn á meðal seðlabanka. Englandsbanki hefur verið í hlekkjum verðbólgumarkmiðs síðan hann öðlaðist sjálfstæði 1997.

Á meðan verðbólgu var haldið innan marka fyrr á þessum áratug, var vöxtum haldið of lágum. Skuldsetning heimila snar jókst og húsnæðisverð hækkaði mun meira en í Bandaríkjunum.

Bretland stendur nú frammi fyrir kvalarfullum timburmönnum eftir hrun fasteignamarkaðarins.

Chancellor bendir svo á að peningastefna Seðlabanka Evrópu hafi blásið upp nokkrar húsnæðisverðsbólur á síðasta áratug. Fasteignverð á Írlandi nálega þrefaldaðist á síðasta áratug og sama tíma tvöfaldaðist fasteignaverð á Spáni. Í báðum löndum var offjárfesting í fasteignum og nú eru hagkerfi þessara landa við það að hrynja.

Þessi lönd geti ekki vænst vægðar hjá Seðlabanka Evrópu. Jean-Claude Trichet, bankastjóri hans, hafði þá nýlega sýnt stefnufestu sína um að halda niðri verðbólgu á evrusvæðinu með því að hækka vexti. Spánn og Írland séu því að alvarlegri klemmu.

Þessi greining Chancellors varpar ljósi á hve hættuleg miðstýrð peningastjórnunarkerfi ríkisseðlabankanna eru. Þegar stjórnendum þeirra verða á mistök – og það gerist oft – hríslast röng skilaboð um allt hagkerfið, valda verðbólum og svo kreppum þegar bólurnar springa.