Mánudagur 23. mars 2009

82. tbl. 13. árg.

F lestir virðast sammála um að næstu fjárlög ríkisins muni einkennast af miklum niðurskurði. Meira að segja Steingrímur J. Sigfússon gengst við því að nú verði að skera mjög verulega niður. Í því ljósi er enn furðulegra en ella, að svo virðist sem stjórnvöld, ríki og Reykjavíkurborg, komist upp með það umræðulítið að halda áfram byggingu tónlistarhússins á hafnarbakkanum í Reykjavík.

Hvorki fréttamenn né stjórnmálamenn gerðu nokkra athugasemd þegar menntamálaráðherra og borgarstjóri tilkynntu á dögunum að það yrði hreinlega dýrara að hætta við bygginguna nú, heldur en að halda áfram og leggja í hana ótal milljarða í viðbót.

Það hlýtur að vera fjarstæða. Hugsanlega er það rétt, að búið sé að semja við verktaka um að þeir byggi húsið. Jafnvel hugsanlegt að hið opinbera teljist skuldbundið í því sambandi. En jafnvel þó svo væri, þá ættu þeir ekki rétt á að húsið verði klárað. Ef ákveðið yrði að hætta við framkvæmdina þá væri hugsanlegt að verktakar ættu rétt á bótum, en þær bætur gætu í hæsta lagi numið þeim ágóða sem verktakinn hefði með réttu getað búist við að fá af verkinu. Og frá honum drægist það hagræði sem verktakinn hefði af að fá slíka greiðslu strax og af því að sleppa við alla áhættu sem hann bæri vitanlega á meðan á framkvæmdum stæði. Slíkar bætur yrðu aðeins brot af byggingarkostnaði. Talið í ráðamönnum um að dýrara væri að hætta við en halda áfram, er einfaldlega ein lygin enn í tónlistarhússbaráttunni.
Þá baráttu mega sérhagsmunirnir ekki vinna. Þingmenn og borgarfulltrúar verða að sjá til þess að byggingin verði stöðvuð.

Á sbjörn Óttarsson í Ólafsvík varð efstur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í norðvesturkjördæmi en Einar K. Guðfinnsson varð annar. Ásbjörn hefur síðan í viðtölum skýrt sigur sinn á Einari með því að krafist hafi verið endurnýjunar. Það er talsverð einföldun. Með svokölluðu matvælafrumvarpi, sem snerist um innleiðingu evrópskra tilskipana, missti Einar vafalítið stuðning bænda. Og með því að opna á það að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild missti hann stuðning, þó hann hafi enn notið þess að hafa árum saman verið eindreginn andstæðingur Evrópusambandsaðildar. Þetta síðarnefnda, þjóðaratkvæðagreiðsluhugmyndin, er reyndar sama ráðið og Bjarni Benediktsson hefur brugðið á, til að reyna að sleppa við formennsku í Sjálfstæðisflokknum, og verður spennandi að sjá hvort það dugar Bjarna að því marki.