Laugardagur 21. mars 2009

80. tbl. 13. árg.
Auðmenn nútímans standa okkur talsvert nær, þeir eru sífellt í fjölmiðlunum, ímyndin er þeim afskaplega dýrmæt. Hér er líka komin upp hlutabréfamarkaður og aðhald fjölmiðlanna er vísast nokkuð kröftugra.
– Egill Helgason skrifaði fyrir þremur árum um hve auðmenn nútímans stæðu okkur nær en auðmenn fyrr á tíð. Enda með kröftugt aðhald fjölmiðlanna.

R íkissjónvarpið heldur úti kjaftaþætti á sunnudögum þar sem þátttakendur virðast valdir með það eitt í huga að skyggja ekki á kenningar stjórnandans heldur renna stoðum undir þær. Kenningarnar lætur hann óspart í ljósi með bunandi bloggi, í öðrum umræðuþáttum og ekki síst í eigin þætti.

Undanfarið hafa allir þeir sem komið hafa nálægt atvinnurekstri verið skotspónn Egils Helgasonar. Sérstaklega þykja svonefndir útrásarmenn liggja vel við höggi, ekki síst þeir sem störfuðu í fjármálafyrirtækjum. Meðal þeirra orða sem hann notar oftast um starfsemi þessara manna er „incest“. Það vekur engan áhuga eða umhugsun stjórnandans að út um víða veröld hafa fjármálafyrirtæki lent í miklum vandræðum. Getur verið að það hafi valist tómir skúrkar til að stýra þessum fyrirtækjum? Það er engu líkara ef marka má umræðuna í Silfri Egils og ekki síður í öðrum þætti sömu stofnunar, Speglinum, sem eins hlægilegt og það kann að hljóma er sendur út sem fréttaskýringaþáttur.

Það er engin tilraun gerð til að skýra þetta kerfishrun, öll orkan fer í að sparka í liggjandi menn.

Egill Helgason lætur það vonandi ekki hafa áhrif á sig að honum var neitað um vinnu í útrásarfyrirtækjunum fyrir nokkrum árum, eins og hann hefur sjálfur lýst vegna þess að hann kunni ekki á Excel. Hann má þakka fyrir það. Annars væri hann í gapastokknum með hinum „incest“ gaurunum.