Mánudagur 16. mars 2009

75. tbl. 13. árg.

P rófkjör voru um helgina og Ríkisútvarpið ákvað að fá hlutlausan sérfræðing til að útskýra þau fyrir landsmönnum. Fyrir valinu varð hinn óhlutdrægi fræðimaður, Svanur Kristjánsson, og hélt hann mikla „eldmessu“ yfir hlustendum eins og hans er siður. Svanur sagði að aldrei framar yrðu haldin prófkjör á Íslandi en í nafni breytinga yrðu menn að stíga til hliðar fyrir nýju fólki. Að því sögðu hóf Svanur mikinn lofsöng um Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hefur verið á þingi í rúm 30 ár, en að mati fræðimannsins ber hún „ægishjálm“ yfir alla aðra menn, og hefur „dýpri skilning á lýðræði“ en allir aðrir.

Árum saman hefur Ríkisútvarpið haft mikinn áhuga á fræðilegum sjónarmiðum Svans, þó á síðustu árum hafi stundum þurft að leita til annarra, eins og Baldurs Þórhallssonar sem óháðs fræðimanns um Evrópusambandið. En þrátt fyrir að sá óháði fræðimaður séu auðvitað efnilegur þegar kemur að Evrópumálum, rétt eins og Ólafur Þ. Harðarson og Gunnar Helgi Kristinsson um önnur málefni Samfylkingarinnar, þá er Svanur auðvitað stórmeistari hinna hlutlausu fræðimanna.

Svanur hefur haldið fleiri eldmessur en hann gerði í fréttatímum um ægishjálm Jóhönnu Sigurðardóttur. Er hann raunar svo ákafur í stuðningi sínum við Samfylkinguna að á sínum tíma sagði hann sjálfur frá því að uppi væru háværar raddir um að hann tæki að sér formennsku hennar meðfram öðrum störfum. Í dagblaðsviðtali sagði hann sjálfur svo frá frammistöðu sinni á flokksfundi:

Ég hélt þar mína „eldmessu“ enda var mér mikið niðri fyrir og ég talaði lengi. Auk upprifjunar á gagnrýni minni lagði ég fram hugmyndir sem ég tel að taka eigi upp í starfi Samfylkingarinnar og þá ekki síst í sambandi við komandi stofnfund. Ég fann að það var mikil stemmning fyrir því sem ég var að segja í lok fundarins og ég fékk góðar undirtektir. Fólk gekk af fundi með bros á vör og ánægt með hugmyndirnar sem ég viðraði. En svo gerðist það sem ég átti ekki von á. Fólk hafði samband við mig eftir fundinn og spurði mig hvers vegna ég gæfi ekki kost á mér til formennsku til þess að framkvæma þessar hugmyndir um hvernig eigi að gera hlutina, sem ég væri að leggja fram og sögðust skyldu styðja mig til þeirra verka

Svani Kristjánssyni er svo mikið niðri fyrir, þegar velgengni Samfylkingarinnar er annars vegar, að hann líkir ræðuhöldum sínum um það efni við frægustu ræðu Íslandssögunnar. Þennan mann fær svonefnd „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ til að gefa hlutlaus fræðimannsálit á stjórnmálaflokkunum og lætur hann sem slíkan halda erindi um oddvita Samfylkingarinnar í fréttatímum. Dettur nú einhverjum í hug að „fréttamenn“ Ríkisútvarpsins viti ekki hvar þeir hafa Svan? Og þegar þeirri spurningu hefur verið svarað, þá stendur eftir hin: Og af hverju ætli „fréttastofan“ óski þá eftir ræðuhöldum Svans í fréttatímum?

Þegar kemur að íslenskum þjóðmálum, þá er „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ ómerkileg áróðursstöð, en ekki fréttastofa.