Þriðjudagur 17. mars 2009

76. tbl. 13. árg.
Félagsmálaráðherra segir það vonbrigði hve litlu margvíslegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á fasteignamarkaði haf skilað. Mjög lítil velta er enn á markaðnum. Ráðherra harmar hve lítið bankarnir láni.
– Hádegisfréttir RÚV 2. september 2008.

Þ ær eru dapurlegar sögurnar sem fólk segir fjölmiðlum um þessar mundir af hrakförum sínum á húsnæðismarkaði. Stór hluti ógæfunnar er beintengdur falli krónunnar. En fleira kemur til en myntkörfulánin eða spákaupmennska húsbyggjenda á gjaldeyrismarkaði. Framsóknarflokkurinn tapaði sér í kosningabaráttunni vorið 2003 og lofaði 90% lánum til húsnæðiskaupa. Framsóknarflokkurinn fékk fylgi sem dugði honum til þess að efna loforðið þótt samstarfsflokkur hans um þær reyndi að tefja málið og þynna það út.

Jóhanna Sigurðardóttir sem þá var búin að vera áratug í leyfi frá félagsmálaráðuneytinu sagði við það tækifæri í þinginu: „Ég fagna því að frumvarp er komið fram þar sem meginmarkmiðið er að lánshlutfall verði hækkað í 90%.“

Bankarnir svöruðu þessu með sambærilegu boði. Fasteignamarkaðurinn blés út eins og bóla á næstu árum. Þá var Jóhanna Sigurðardóttir komin úr leyfi sínu frá félagsmálaráðuneytinu og reyndi hvað hún gat til að lokka þá sem hefðu hug á að kaupa sína fyrstu íbúð út á fasteignamarkaðinn. Í því skyni voru stimpilgjöld við fyrstu kaup felld niður í fyrrasumar og viðmið brunabótamats afnumið hjá Íbúðalánasjóði vorið 2008.

Jóhanna var enn að hvetja bankana til að lána húsbyggjendum í byrjun september á síðasta ári. Hún harmaði það, hvorki meira né minna, að þeir skyldu ekki draga fleiri út í skuldafenið skömmu fyrir hrunið.