Helgarsprokið 15. mars 2009

74. tbl. 13. árg.

M iðað við niðurstöðu prófkjörs stjórnmálaflokkanna í gær, verða mun meiri kynslóðaskipti í forystu Sjálfstæðisflokksins en hjá vinstri flokkunum, bæði með tilliti til aldurs og lengdar þingsetu.

Í Reykjavík verða þrír af fjórum efstu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins ekki boðnir fram að nýju; þau Geir H. Haarde, Björn Bjarnason og Guðfinna Bjarnadóttir. Efstu menn, Illugi og Guðlaugur Þór, eru fulltrúar nýrrar kynslóðar í stjórnmálum og hvorugur þeirra hefur verið langdvölum á þingi, Illugi hefur setið tæp tvö ár á þingi en Guðlaugur í tæp sex. Þá sendu sjálfstæðismenn skýr skilaboð með því að varaformaður flokksins féll niður um sæti í prófkjöri í suðvesturkjördæmi og urðu það vitanlega fréttnæmustu úrslit kvöldsins. Þá sýndu sjálfstæðismenn samstarfsvilja sinn við aðra flokka, þegar Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi varaformaður Bandalags jafnaðarmanna (leiðrétt, Ragnheiður var ekki varaformaður), komst upp fyrir Jón Gunnarsson í sama kjördæmi, enda langt frá síðasta útkalli.

Útlit er fyrir að aðeins þrír af sex ráðherrum Sjálfstæðisflokksins úr síðustu ríkisstjórn verði í kjöri í kosningunum 25. apríl; Guðlaugur Þór Þórðarson, Einar K. Guðfinnsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir – og er raunar ekki víst um Einar enn, því prófkjör verður í norðvesturkjördæmi um næstu helgi og sækja þar margir að honum, þó hann verjist að sjálfsögðu með hvalskutulinn í hendi.

Það stefnir hins vegar í að fimm af sex ráðherrum Samfylkingar úr síðustu ríkisstjórn verði í kjöri, einungis Ingibjörg Sólrún dregur sig í hlé, og það af heilsufarsástæðum, en samkvæmt ummælum hennar stefnir hún að því að hefja aftur þátttöku í stjórnmálum jafnskjótt og hún hefur sigrast á veikindum sínum. Niðurstöður prófkjörs Samfylkingarinnar í gær sýna að Samfylkingin svarar kröfunni um endurnýjun á framboðslistum með því að tefla fram nýliðum eins og Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni í efstu sætin í Reykjavík. Um tíma leit út fyrir að formaður ungra jafnaðarmanna næði vænlegu sæti á lista, en á síðustu stundu skutust nýliðarnir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Mörður Árnason fram úr.

Hafi einhverju Samfylkingarfólki dottið í hug að endurnýja ætti á toppnum, voru þær ranghugmyndir þegar slegnar út af borðinu á blaðamannafundi Ingibjargar Sólrúnar og Jóhönnu skömmu fyrir prófkjör. Þar tilkynntu þær Samfylkingarfólki náðarsamlegast að búið væri að taka efstu sætin í prófkjörinu frá, það er að segja fyrir þær sjálfar. Landsfundarfulltrúum Samfylkingarinnar var á sama blaðamannafundi tilkynnt að Jóhanna yrði forsætisráðherraefni flokksins í næstu kosningum, og kæmu ekki aðrir að þeirri ákvörðun frekar en áður í Samfylkingunni. Viku síðar tilkynnti Ingibjörg Sólrún að hún væri hætt þátttöku í stjórnmálum, í bili, og tilkynnti Össur þá að hann stefndi rakleiðis á annað sætið. Jóhanna hefur nú setið í rúm þrjátíu ár á þingi og Össur í átján. Þannig svarar Samfylkingin í Reykjavík kröfum um endurnýjun. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir var fyrst kjörin á alþingi þá var Geir Hallgrímsson forsætisráðherra. Síðar tók Ólafur Jóhannesson við.

Í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi fékk Ragnheiður Elín Árnadóttir örugga kosningu í fyrsta sætið, Árni Johnsen varð í öðru sæti, Unnur Brá Konráðsdóttir sveitarstjóri í þriðja og Íris Róbertsdóttir kennari í hinu fjórða. Þingmennirnir Kjartan Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir lentu í 5. og 6. sæti sem þýðir væntanlega að þau eru fallin af þingi. Aðeins einn af fjórum núverandi þingmönnum sjálfstæðismanna í kjördæminu er því líklegur til endurkjörs í kosningunum í apríl. Í prófkjöri Samfylkingarinnar í sama kjördæmi hreppti Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, fyrsta sætið og verður því væntanlega ráðherraefni flokksins í komandi kosningum, þegar Gylfa Magnússyni verður vísað á dyr eins hratt og honum var boðið inn um þær fyrir mánuði.

Jón Bjarnason, alþingismaður og talsmaður þess að vinnubrögð séu gegnsæ og allt uppi á borðinu, vann glæsilegan sigur í prófkjöri vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi enda var þess vandlega gætt að aðrir frambjóðendur en hann fengju ekki aðgang að kjörskránni. Hann er líka reyndari prófkjörsmaður en margur, enda tók hann þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar á sínum tíma, náði engum árangri, og bauð sig þá strax fram á lista vinstrigrænna og náði kjöri á þing til að berjast fyrir hugsjónum sínum.

Flest bendir til að Bjarni Benediktsson verði kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á næsta landsfundi. Bjarni hefur aðeins setið á alþingi frá árinu 2003 og hefur aldrei gegnt ráðherrastarfi. Mestur áhugi virðist hins vegar vera fyrir því innan Samfylkingarinnar að Jóhanna Sigurðardóttir verði ,,nýr” formaður flokksins. Engin hætta virðist á að Steingrímur J. Sigfússon telji tíma til kominn að endurnýja forystusveit vinstri grænna en hann hefur nú setið á Alþingi í rúman aldarfjórðung. Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar kosið sér nýjan formann sem kunnugt er, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, en hann hefur ekki setið á þingi og hefur í stjórnmálum unnið það eina frægðarverk að færa vinstriflokkunum öll völd í landinu og bjóðast til að gera það áfram eftir kosningar. Ekki er því vitað um nokkra einustu ástæðu sem fólk hefði fyrir því að kjósa Framsóknarflokkinn. Þeir, sem vilja að Jóhanna og Steingrímur J. deili og drottni næstu árin af sömu hófsemi og virðingu fyrir lögum og reglum og þau hafa gert síðustu 40 daga, kjósa að sjálfsögðu Samfylkingu eða vinstrigræna. Hinir eiga ekki annan kost en að styðja núverandi stjórnarandstöðu. Ekki nokkur lifandi maður á hins vegar erindi við Framsóknarflokkinn á kjördag.

Það er að koma á daginn að umrót undanfarinna mánaða hefur leitt til mun meiri endurnýjunar á forystu og í þingliði Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins en hjá vinstri blokkinni, Samfylkingunni og Vinstri grænum.