Fimmtudagur 5. mars 2009

64. tbl. 13. árg.

Þ að er leiðinlegt að hlutdrægasta stétt á Íslandi þurfi endilega að vera íslenskir fréttamenn. Verulegur munur er á framgöngu þeirra eftir því hver á í hlut hverju sinni.
Sjálfsagt er að rifja upp eitt mál sem Vefþjóðviljinn nefndi á dögunum, því fleira hefur gerst í því máli síðan þá, sem ætti að gera það enn áhugaverðara en ella. Hinn 24. febrúar sagði Jóhanna Sigurðardóttir opinberlega að það væri mjög alvarlegt mál að seðlabankastjórafrumvarp hennar tefðist í þinginu um tvo daga. Skýringin sem hún gaf var þessi: „Við erum að fá hingað til lands fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, væntanlega á fimmtudaginn. Það verður að vera komin festa í starf bankans til að fulltrúar AGS geti rætt við bankastjóra sem ekki eru á förum úr bankanum, samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Endurnýjun þar er nauðsynleg til að endurreisa trúverðugleika Seðlabankans innanlands og utan.“

Eins og Vefþjóðviljinn benti á var hér um að ræða bláköld ósannindi, því í seðlabankastjórafrumvarpi Jóhönnu var hreinlega gert ráð fyrir því að þegar við gildistöku skyldu réttilega skipaðir bankastjórar láta af störfum en nýr vera settur til bráðabirgða. Jóhanna, sem lét í viðtölum eins og hún mætti ekki til þess hugsa að sendinefnd alþjóðagjaldeyrissjóðsins hitti bankastjóra sem væru „á förum“, ætlaðist í raun og veru til þess að sendinefndin hitti mann sem hefði tekið við sama daginn. Ekki einn einasti fjölmiðill hefur enn séð ástæðu til að segja frá þessum ósannindum forsætisráðherrans.

Það sem síðan gerðist var það að Jóhanna telur sig hafa sett norskan mann til að gegna seðlabankastjórastarfinu. Þegar henni er bent á stjórnarskrá landsins þá svarar hún því til að bann stjórnarskrárinnar við erlendum mönnum í íslenskum embættum eigi aðeins við um skipun en ekki tímabundna setningu. En þar með liggur þó fyrir að jafnvel Jóhanna sjálf telur að stjórnarskráin banni henni að skipa þennan Norðmann í starfið. Þannig að maðurinn, sem hún ákvað að sendinefnd alþjóðagjaldeyrissjóðsins skyldi hitta, var ekki aðeins bráðabirgðamaður á fyrsta degi sínum í starfi, heldur maður, sem er svo gersamlega „á förum“ úr bankanum innan skamms, að það er beinlínis bannað í stjórnarskránni að skipa hann í starfið.

Og enginn fjölmiðill hefur enn bent á þetta. Og auðvitað verður það aldrei gert. „Jóhanna er svo heiðarleg“ og meira þarf ekki um hana og hennar verk að segja.

S agt var frá því í fréttum að alþingi hefði samþykkt að nema úr gildi lög um eftirlaun ráðherra. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir gætti þess að hefja myndina af Davíð Oddssyni í ræðustól alþingis þó Davíð hafi aldrei þegið krónu samkvæmt eftirlaunalögunum og hafi ekki borið „eftirlaunafrumvarpið“ fram á alþingi á sínum tíma. Þá sýndi Jóhanna Vigdís hinn glæsta umbótamann, Steingrím J. Sigfússon, í pontu og bæði leyfði fólki að heyra hann segja og hafði eftir honum til öryggis að „löngum og leiðinlegum kafla í þingsögunni“ væri nú lokið. Ekki þótti áhugavert að segja áhorfendum frá því að enginn þingmaður hefur fengið meira í sinn hlut með samþykkt „eftirlaunafrumvarpsins“ en Steingrímur J. Sigfússon. Slíkar óáhugaverðar upplýsingar munu menn aldrei fá frá fréttastofu Ríkissjónvarpsins. Þar býðst bara mynd af Davíð Oddssyni í ræðustóli og fagnaðarstuna Steingríms J. Sigfússonar yfir því að þessum langa og leiðinlega kafla sé lokið.

Tvær spurningar: Ætli áhorfendum þætti forvitnilegt að heyra að enginn þingmaður hafi fengið meira í sinn hlut en Steingrímur J. Sigfússon af samþykkt „eftirlaunafrumvarpsins“ á sínum tíma? Og ef svo, af hverju ætli sé þá aldrei sagt frá því?