Miðvikudagur 4. mars 2009

63. tbl. 13. árg.

R ósa Guðbjartsdóttir bæjarfulltrúi í Hafnarfirði spyr að því í grein í Fréttablaðinu í dag hvort frjálshyggjan hafi lagt Bretland og Hafnarfjörð í rúst.

Tilefnið er að Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði lýsti því yfir á bæjarstjórnarfundi nýlega að slæm fjárhagsstaða og skuldasöfnun bæjarins væri frjálshyggjustefnu Sjálfstæðisflokksins að kenna. Rósa segir að eftir sex ára stjórnartíð í Hafnarfirði hafi Samfylkingunni að öllum líkindum tekist að setja heimsmet í skuldaaukningu.

Lúðvík og félagar hans í Samfylkingunni í Hafnarfirði gerðu sömu mistök og svo margir aðrir á undanförnum árum. Þeir létu glepjast af ódýru erlendu lánsfé og höfðu ekki borð fyrir báru. Hvernig átti Sjálfstæðisflokkurinn að koma í veg fyrir að kratar í Hafnarfirði tækju erlend lán?

Þessi mistök voru ekki aðeins gerð í Hafnarfirði þótt þar hafi menn alveg gleymt að hafa botn í bæjarsjóði og tappa í nýju sundlauginni. Eins og Rósa bendir á þá hafa jafnaðarmenn stjórnað í Bretlandi undanfarin áratug og óvíst að breska ríkið hafi bolmagn til að taka meira af fjármálakerfinu upp á arma sína en þegar er orðið.

Þegar frá líður munu menn sjá að seðlaprentun ríkisins, ríkisábyrgðir á húsnæðislánum og ríkistryggingar á innistæðum eru rótin að þeim vanda sem menn glíma nú við um allan heim.