S tundum er eins og það hafi ekki aðeins verið stærstu einingar íslenska bankakerfisins sem hrundu síðast liðið haust. Frá sama tíma hefur mjög lækkað risið á íslenskri þjóðmálaumræðu. Ekki þó þannig að færri taki þátt í henni en áður, en það sem boðið er upp á, er nú mun oftar en áður til háborinnar skammar.
Fréttamenn hafa náð nýjum hæðum í hlutdrægni sinni og persónulegum herferðum og sama má segja um álitsgjafana, þó þeir séu vissulega fæstir undir sömu hlutleysiskröfu seldir. Flestir virðast komast upp með að slá hvaða fjarstæðu sem er fram í umræðunni og aðeins í algerum undantekningartilvikum sem fréttamenn grennslast fyrir um sannleiksgildi þess sem sagt er. Á því eru þó undantekningar og einn og einn maður hefur búið við það að mega vart opna munninn opinberlega án þess að herdeildir fréttamanna eyði næstu dögum í að reyna að sanna á hann mótsagnir og ónákvæmni og spara sig þá hvergi. En meginreglan undanfarna mánuði hefur verið hin; menn slá bara hvaða þvættingi sem er fram, og hann verður fljótlega að viðteknum sannindum.
- Fyrir bankaþrot þótti ýmsum sem íslensk umræða einkenndist heldur mikið af oflæti. Íslenskir viðskiptamenn væru snjallari og djarfari en aðrir og hinn almenni Íslendingur væri líklegri til árangurs en hver annar, vegna uppruna og eðlis. Nú hefur þetta hins vegar snúist gersamlega við, og eru þær öfgar litlu betri. Nú eru álitsgjafarnir komnir á þá skoðun að Íslendingar séu ómögulegir, vitlausir og að það sé hlegið að þeim um allan heim. Íslendingar eru litlir, en Útlendingar stórir.
- Furðulegasta dæmið um þetta er þegar íslenskir álitsgjafar og fréttamenn slá því upp þegar erlendis birtist grein um Ísland. Virðast þeir telja að þar sé kominn hinn óhlutdrægi sannleikur. Hvernig ætli þær greinar séu unnar, ætli erlendi blaðamaðurinn hafi rannsakað íslensk málefni árum saman af sérþekkingu sinni? Nei raunar ekki. Þessar greinar eru þannig unnar að hingað kemur blaðamaður sem hvorki talar né les íslensku og er í Reykjavík í tvo daga. Hann spyr á hótelinu og í blaðaheiminum við hvern hann eigi að tala, fer svo og hittir tvo þrjá álitsgjafa og stjórnmálamenn og skrifar upp eftir þeim. Fer svo heim og birtir grein upp úr þessu, stundum næstum samhljóða nýjustu bloggum og vísindum. Álitsgjafar og fréttamenn taka svo greinina sem óhlutdrægan stórasannleik og endurbirta með lotningu.
- Menn ættu að setja sjálfa sig – eða einhverja þekkta álitsgjafa – í þessi sömu spor. Fara í huganum til lands sem þeir þekkja ekki neitt og tala hvorki né lesa málið, segjum Úganda, vera þar í tvo daga og eiga að skrifa ýtarlega grein um innviði landsins og skýringar á því sem þar hefði gerst undanfarin ár. Ætli sú grein þætti mikil vísindi í Úganda? Næst þegar einhver álitsgjafi veifar svona grein um Ísland, þá ætti einhver að spyrja hann hvort hann myndi treysta sér til að skrifa sambærilega grein, á sambærilegum tíma, um sambærilega flókin mál í Gabon. Og ef ekki, hvers vegna hann væri þá að veifa erlendu greininni.
- Íslensku bankarnir komust í þrot vegna ákvarðana stjórnenda þeirra en ekki vegna einhverra afglapa íslenskra stjórnvalda. Erlendir seðlabankar lögðu vissulega fyrir menn freistingar, með ódýru lánsfé í ótrúlegum skömmtum, en ábyrgðin á því hvernig fór er hjá stjórnendum íslensku fyrirtækjanna en hvorki þingmanna, ráðherra né embættismanna, þó sumum þyki fyrirhafnarminnst og öðrum ánægjulegast að kenna þeim um. Engum datt heldur í hug að íslenska ríkið bæri ótakmarkaða ábyrgð á innlánum í útibúum íslenskra banka erlendis. Það var síðari tíma lagatúlkun ESB. En einn þingmaður telur sig reyndar bera ábyrgð á þessu með „andvaraleysi“ sínu og hefur Ásta Möller því beðist afsökunar. Enginn hefur spurt þennan hugmyndaríka þingmann hvernig það var nákvæmlega sem hún olli bankahruninu og hvort hún vilji þá ekki núna, þó seint sé, gera viðeigandi ráðstafanir til að það endurtaki sig ekki. Hér voru gríðarlegar reglur og eftirlit með bankakerfinu, allt eftir forskrift frá Brussel og þar á bæ verða menn ekki sakaðir um að draga lappirnar þegar kemur að því að framleiða reglur. Bankakerfið hefði farið sömu leið þó Ásta Möller hefði haft meiri andvara á sér.
- Og enn skal spurt: Hvernig ætli fréttamenn, stjórnarandstaða og álitsgjafar létu, ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði, rétt eins og stjórnarskráin væri ekki til, sótt útlending og gert hann að seðlabankastjóra, mann sem enginn hér þekkti en hefði einfaldlega verið ráðinn vegna tillögu frá erlendum flokki sem sjálfstæðismenn litu upp til?
Það væri allt vitlaust.