R íkisstjórnin tilkynnti í dag að hún hefði ákveðið að „skapa“ rúmlega fjögur þúsund ný störf. Það mun hún gera með því að nota opinbert fé til að borga mönnum fyrir ýmis viðvik; allt frá gangstígagerð og dytti að húsum til þess að mönnum á listamannalaunum verður fjölgað.
Nú þarf ekki að efast um að þeir sem fá þessi störf verða þeim fegnir. En hverjum, nema ráðherrum og gagnrýnislausum fréttamönnum, dettur nú í hug að ríkið “skapi störf með þessum hætti. Peningarnir, til að borga mönnum fyrir að vinna þessi störf, koma frá skattgreiðendum, með einum eða öðrum hætti. Frá skattgreiðendum, fyrirtækjum og einstaklingum, renna nógu margar krónur í ríkissjóð til að borga rúmlega fjögurþúsund manns fyrir að vinna hin og þessi verk fyrir ríkið. En sama upphæð er þá horfin úr vösum skattgreiðendanna; fyrirtækja sem hefðu hefðu getað ráðið sér starfsfólk eða sleppt því að segja því upp, og einstaklinga sem hefðu getað notað peningana til að kaupa sér vörur og þjónustu. Ríkið skapar ekki eitt einasta starf; það færir þau til, frá einkafyrirtækjum þar sem þeim var sinnt af því að það var markaður fyrir þau, og til ríkisins þar sem þeim var ekki sinnt áður.
Og Steingrímur J. Sigfússon kemst athugasemdalaust upp með að fullyrða í fréttum að peningarnir komi ekki frá skattgreiðendum því þeir komi frá opinberum stofnunum, eins og atvinnuleysistryggingasjóði og Íbúðarlánasjóði. Ætli íslenskir fréttamenn séu bara almennt hættir störfum? Hvaðan ætli þessar opinberu stofnanir fái peninga sína? Bara með vindinum? Og ef þessir peningar voru til og lágu undir skemmdum hjá ríkinu, af hverju voru skattar þá ekki lækkaðir svo fyrirtæki og einstaklingar hefðu úr meiru að spila þegar staða beggja er tvísýn?
En nei, það lá meira á að fá „blaðamannafund um atvinnumál“. Og ekki þurftu ráðherrarnir að óttast gagnrýnar spurningar frá íslenskum fréttamönnum.
En þeir sem halda að ríkið geti „skapað störf, þeir geta þá kannski svarað lítilræði: Af hverju á að takmarka sig við fjögur þúsund „ný störf“? Af hverju ekki að skapa bara tíuþúsundstörf svo menn geti gleymt atvinnuleysinu og farið á stjórnlagaþing?