Laugardagur 21. febrúar 2009

52. tbl. 13. árg.

E ina málið á dagskrá alþingis í vær var seðlabankastjórafrumvarp ríkisstjórnarinnar, enda þykir núverandi ríkisstjórn fátt brýnna. Sama má segja um ýmsa fjölmiðlamenn sem hafa lengi verið verulega áhugasamir um seðlabankann og sumt sem að honum snýr.

Seðlabanki Íslands sendi frá sér umsögn um frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur, og var fróðlegt hvernig ríkissjónvarpið sagði frá henni. Þeir sem lesa umsögnina á heimasíðu bankans sjá þar ýmis atriði sem kynnu að hafa komið áhorfendum á óvart. Þannig er bent á það í umsögninni, að öfugt við það sem oft er haldið fram, að í nágrannalöndum sé seðlabankastjóri aðeins einn, þá eru þeir mun fleiri; í Danmörku þrír, Finnlandi fjórir og Svíþjóð sex. Annað sem hefur verið haldið að Íslendingum er að seðlabankastjórar verði að vera hagfræðingar því ella verði heimskreppa. Í umsögninni kemur fram að alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sérstaklega tekið fram, að lögfræðingar uppfylli hæfisskilyrði þess að vera seðlabankastjórar.

Annað í umsögninni sem einhverjum hefði þótt áhugavert, er að bent er á það að með frumvarpi Jóhönnu Sigurðardóttur er í raun ekki verið að leggja niður starf aðalbankastjóra seðlabankans, en í núgildandi lögum og greinargerð kemur skýrt fram að í bankanum eru nú tvenns konar bankastjórastöður. Annars vegar eru almennir bankastjórar og hins vegar aðalbankastjóri sem jafnframt er formaður bankastjórnar. Það starf er ekki lagt niður með lögunum og því ástæðulaust að auglýsa það. Ef hins vegar er ákveðið í lögum að tiltekið starf, sem maður situr í, löglega skipaður, skuli engu að síður auglýst, þá er ekki um það að ræða að verið sé að endurskipuleggja stofnun heldur einfaldlega að segja manni upp störfum. Hvernig fer það saman við hina vinsælu jafnræðisreglu að setja lagagrein sem segir einum manni upp störfum?

Allt hefðu þetta verið áhugaverð atriði fyrir sjónvarpsáhorfendur, sem hafa fengið verulega einhliða frásagnir af seðlabanka Íslands og störfum hans undanfarna mánuði. En Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur þótti þetta ekki áhugavert. Það sem hún fann fréttnæmt voru stóru atriðin: Seðlabankinn segi að „mjög skorti á vandaðan rökstuðning byggðan á rannsóknum og vel undirbyggðri vinnu. Ekki hafi verið hægt að fá upplýsingar um hverjir sömdu frumvarpið og ekki sé rökstutt hvers vegna því sé leynt. Þá undrast bankinn stuttan frest sem hann fái til að vinna umsögnina. Segir enn fremur að fara þurfi að með mikilli gát og vandvirkni til þess að fyrirbyggja að úr verði stjórnsýslubastarður sem geri stjórnina óskilvirka og veki tortryggni innan sem utan bankans.“

Og að þessu sögðu bætti hún við: „Nú, og fjölmörg frumvörp ríkisstjórnarinnar bíða nú afgreiðslu.“ En því miður taldi hún ekki upp þessi fjölmörgu mál sem bíða nú afgreiðslu.

Hitt er svo annað mál, að þó Vefþjóðviljanum ofbjóði hlutdrægnin í fréttum af og umfjöllun um seðlabanka Íslands, þá er blaðið andvígt ríkisreknum seðlabönkum. Það sé í eðli slíka stofnana að skekkja markaði og gera þegar upp er staðið meira ógagn en gagn.

Hér má til dæmis sjá forvitnilegt myndband um seðlaprentun Seðlabanka Bandaríkjanna. Það er ekki að undra að markaðir fari á hliðina þegar ódýrum peningum er dælt út á þá með þessum hætti.