Föstudagur 20. febrúar 2009

51. tbl. 13. árg.
Bæði lánshæfismatsfyrirtækin Fitch og Moody’s gengu út frá því í skýrslum sínum að íslenska ríkið hefði vilja og getu til að verja íslensku bankana. Moody’s gekk svo langt árið 2007 að láta bankana fá jafn gott lánshæfismat og ríkið, með þeim rökum að ríkið myndi bjarga bönkunum.
– Markaðurinn trúði á ríkisábyrgð, Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri í Morgunblaðinu í dag.

Þ að er búið að skrifa ýmislegt um ástæður efnahagshrunsins í haust. Margt af því er hrein pólitísk tækifærismennska. Megin kenningin er að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið 18 ár í ríkisstjórn og því hljóti áfallið í haust að vera afleiðing af hugmyndafræði hans.

Það er því tilbreyting að lesa stöku sinnum hugleiðingar í blöðunum sem fara nærri um ástæður þess að Íslendingar fengu að kenna á lánsfjárkreppunni með svo afdrifaríkum hætti. Dæmi um það er grein Gunnlaugs Jónssonar í Morgunblaðinu í dag. Þar bendir Gunnlaugur á að stjórnvöld hafi bæði leynt og ljóst gefið til kynna að bankarnir fengju ekki að fara á hausinn. Það hvetji hvorki bankana né lánveitendur þeirra til ábyrgrar hegðunar.

Mikilvægustu skilaboðin um að ríkið taki þátt í að verja fjármálastofnanir falli er starfsemi seðlabanka.

Starfsemi seðlabanka með seðlaprentunarvald víða um heim er beinlínis réttlætt með því að til staðar þurfi að vera lánveitandi sem geti búið til nýja peninga og lánað bönkum í vanda. Óhætt er að segja að allir gengu út frá því að Seðlabanki Íslands myndi starfa þannig ef skortur yrði á lausu fé, enda lítur hann á það sem hlutverk sitt að veita bönkum laust fé í íslenskum krónum. Reyndar virðist vera að hann hafi í raun verið snemma byrjaður að búa til peninga í miklum mæli fyrir bankana, sem þeir skiptu í erlenda mynt og veiktu þannig krónuna.

Gunnlaugur rekur svo ýmsar yfirlýsingar ráðamanna á síðustu árum um stuðning við bankanna. Þar á meðal eru þau orð utanríkisráðherra í apríl á síðasta ári að stjórnvöld myndu „ekki láta [bankana] verða gjaldþrota eins og staðan er í dag.“

Í sama miðli og mánuði var haft eftir ráðherranum að hann hefði í umræðum á Alþingi um gjaldeyrisforða sagt „mikilvægt, að bankarnir geti, ef þörf krefur, leitað eftir lausafé til Seðlabankans, sem eigi að vera lánveitandi til þrautavara.“

Ekkert af þessu var óvenjulegt. Algengt er að ríki og seðlabankar styðji banka og bjargi þeim frá gjaldþroti, sérstaklega þeim sem stórir eru. Meint ríkisábyrgð var í samræmi við það sem margir hagfræðingar telja ranglega skynsamlegt, að skattgreiðendur styðji við bankakerfið.

Reyndar skipta allar yfirlýsingar um ríkisábyrgð eftir 2005 litlu máli. Skaðinn var skeður. Aðalatriðið er að erlendir lánveitendur trúðu að miklu leyti á stuðning íslenska ríkisins, þegar mesti vöxtur bankanna fór fram á árabilinu 2001-2005. Þannig uxu þeir of mikið. Vandamálið var ekki of lítill gjaldeyrisforði eða að það þyrfti að stofna „þjóðarsjóð“ , eins og stungið var upp á til að ráða bót á vandanum. Þjóðarsjóðirnir og gjaldeyrisforðarnir hefðu átt að vera til staðar inni í bönkunum sjálfum. Þeir tefldu of djarft og lánveitendur veittu þeim of mikil lán í meintu skjóli ríkisins. Ríkið átti að taka af allan vafa um að það myndi aldrei styðja bankana.

Það er ekki nýtt að ríkisafskipti hafi öfug áhrif við það sem þeim er ætlað. Seðlabönkum er ætlað að styðja við fjármálakerfið. Nú er að koma í ljós víða um heim að starfsemi slíkra ríkisstofnana hefur þvert á móti grafið undan stöðugleika á fjármálamörkuðum.