Fimmtudagur 19. febrúar 2009

50. tbl. 13. árg.

E ins og Vefþjóðviljinn nefndi í fyrradag, þá hækkuðu laun Steingríms J. Sigfússonar um kvartmilljón á mánuði vegna samþykktar „eftirlaunafrumvarpsins“ árið 2003. Frá því lögin voru samþykkt hefur hann 61 sinni fengið þingfararkaup með 50% álagi sem formaður stjórnarandstöðuflokks. Vel á annan tug milljóna króna hefur runnið í vasa Steingríms J. Sigfússonar vegna frumvarpsins. Enginn þingmaður hefur borið meira úr býtum en Steingrímur J. Sigfússon vegna samþykktar „eftirlaunafrumvarpsins“ . Og nú kemur Steingrímur J. Sigfússon, sex vikum fyrir kosningar, þegar Alþingi á að ræða efnahagsmál, og vill slá sig til riddara með því að afnema öll ákvæðin sem lögleidd voru með „eftirlaunafrumvarpinu“, nema reyndar það ákvæði sem 61 sinni hefur tryggt honum þingfararkaup með 50 % álagi. Eða svo þetta sé stafað ofan í bæði fréttamenn og hrædda þingmenn: Steingrímur J. Sigfússon hefur fengið meira en nokkur annar þingmaður út úr samþykkt „eftirlaunafrumvarpsins“. Nú vill hann fá persónulegar vinsældir ofan á peningana.

  • Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sem nú er orðin félagsmálaráðherra í minnihlutastjórninni, hefur skrifað stjórnmálaflokkunum og heimtað að karlar og konur hafi jafnan sess á framboðslistum. Ásta Ragnheiður situr jafnframt í ríkisstjórn sem þykist hafa það á stefnuskrá sinni að auka val kjósenda milli frambjóðenda. Það á að auka „persónukjör“. Og það á líka að raða á lista samkvæmt opinberum óskum um kynjaskiptingu. Dettur einhverjum í hug að menn meini aukatekið orð af gaspri sínu um „aukið persónukjör“? Hver er það sem telur að það sé of lítill pópúlismi í íslenskum stjórnmálum?
     
  • Enn sem komið er, eru lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar hugsuð til þess eins að gera upp persónulega reikninga eða afla ráðherrunum stundarvinsælda í kosningabaráttu. Ríkisstjórnin var að sögn mynduð til þess að gæta hagsmuna heimilanna. Á daginn hefur komið að hennar helsta áhugamál eru hagsmunirnir á stjórnarheimilinu. Fréttamenn hafa þó engan áhuga á því. Þar kemst ekkert að, nema það hvenær seðlabankastjórafrumvarpið kemst úr nefnd.
     
  • Og enn eru framsóknarmenn hlýðnir í taumnum. Ætli þeir séu þeir einu sem sjá ekki hvað verður um þá eftir næstu kosningar?