Miðvikudagur 18. febrúar 2009

49. tbl. 13. árg.

U ndanfarin ár hefur fast verið sótt að ríkisstjórn á Alþingi. Krafist hefur verið utandagskrárumræðna hvað eftir annað, heimtaðar skýrslur og haldið uppi málþófi yfir tómum sal dag eftir dag. Þetta hefur fréttamönnum og álitsgjöfum þótt sjálfsagður hluti lýðræðis.

Nú ber svo við hins vegar, að menn hafa miklar áhyggjur af þessum eilífa „sandkassaleik“ og „karpi“ á Alþingi. Þar eigi menn að vinna vinnuna sína, í stað þess að rífast um fánýta hluti.

Ætli skyndilegar áhyggjur álitsgjafanna á karpinu tengist því eitthvað að nú sé komin ný ríkisstjórn? Að 80-daga minnihlutastjórn vilji fá frítt spil en enga gagnrýni?

Á dögunum ákvað fráfarandi sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, að leyfa hvalveiðar. Viðtakandi ráðherrar, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, brugðust hin verstu við og sögðu þá ákvörðun verða endurskoðaða þegar í stað og Steingrímur sendi þegar bréf til hvalveiðimanna um að þeir gætu engan rétt byggt á fyrri ákvörðun. Boðaði hann nýja ákvörðun innan skamms.

Næst gerðist það hins vegar að skoðanakannanir sýndu mikinn stuðning við hvalveiðar. Vinstrigrænir hugsa aðeins um málefnin en ekki vinsældirnar og Steingrímur tilkynnti því í dag að ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar fengi að standa, fram yfir kosningar.

O g fréttamenn eru búnir að finna einhverja sem halda að viðskipti Íslendinga verði í stórhættu ef hvalveiðar verða leyfðar. Hvernig er það, hefur einhver hætt við að fara til Bandaríkjanna vegna Íraksstríðsins? Hefur einhver hætt við Spánarferð vegna nautaats? Er einhver sem kaupir ekki spænskar vörur vegna þess hvernig þeir fara með nautin? Írar banna fóstureyðingar, hefur einhver hætt við að fá sér Guinness vegna þess? Hefur einhver hætt við eitthvað vegna sambærilega umdeildra ákvarðana og hvalveiðar eru?