Helgarsprokið 22. febrúar 2009

53. tbl. 13. árg.

Ý

Ódýrir peningar úr prentvélum ríkisins villa um fyrir fólkinu á markaðnum, valda þenslu og svo kreppu.

msir gera kröfu til þess um þessar mundir að hafa verið spámannlega vaxnir á undanförnum árum, séð hrunið fyrir og verið gáttaðir á óráðsíunni og hneykslaðir á „auðokuninni“ og virðingarleysinu fyrir lögum og reglum. Þetta eru jafnt menn sem hvort eð er hafa spáð hafa öllu norður og niður um áratuga skeið, menn sem ráðlögðu almenningi að skuldsetja í erlendri mynd og menn sem stýrt hafa fyrirtækjum sem fengið hafa á annað hundruð milljónir króna í sektir fyrir að fara á svig við lög gegn „auðokuninni.“

Engar spurnir eru af því að þessir menn hafi nýtt sér spádómsgáfuna til að hagnast.

En það hafa fleiri en ríkispanellinn hjá Agli reynt fyrir sér í þessum efnum. Það er reyndar til heil deild innan hagfræðinnar sem hefur sér það helst til ágætis að spá því að seðlaprentunarvald ríkisins leiði til ójafnvægis í efnahagslífinu, mikillar þenslu sem endi með hvelli.

F.A. von Hayek sagði í fyrirlestri árið 1976 frá því að Kínverjar hefðu fyrr á tíð reynt að banna seðlaprentun og það ekki að ástæðulausu.

Helsta undirrót þeirra peningavandræða sem við eigum í núna, er vitaskuld það fulltingi vísindanna sem Keynes lávarður og fylgismenn hans, hafa ljáð þeirri fornu bábilju, að með því að auka heildar eyðslu fjár, sé hægt að auka hagsæld með varanlegum hætti og hafa næga atvinnu. Fyrir daga Keynes höfðu hagfræðingar glímt við þessa bábilju, í að minnsta kosti tvær aldir. Hún hafði ríkt um mikinn hluta skráðrar sögu á undan. Raunar er hagsagan að drjúgum hluta verðbólgusaga. En vel að merkja, var það ekki fyrr en blómstrandi iðnkerfi nútímans komst á legg, og á tíma gullfótarins, að í hér um bil tvö hundruð ár (frá um 1714 til 1914, í Bretlandi – og í Bandaríkjunum frá um 1749 til 1939) sem verðlag var að lokum eins og það hafði verið í upphafi. Á þessu einstæða stöðugleikaskeiði peninga, veitti gullfóturinn peningastjórn slíkt aðhald að stöðvaði þær hundakúnstir, sem annars hafa nær ævinlega tíðkast. Reynslan virðist ekki ósvipuð annars staðar í heiminum: Eitt sinn heyrði ég um gömul lög í Kínaveldi, þar sem reynt var að banna pappírspeninga um alla framtíð (án árangurs, vitanlega), löngu áður en mönnum datt í hug að nota slíkt í Evrópu!

Hagfræðingar austurrísku skólans, sem Hayek tilheyrir, hafa í hundrað ár varað við því að láta stjórnmálamönnum eftir seðlaprentunarvald nema með ströngum takmörkunum eins og gullfæti.

Hayek nefndi í þessum fyrirlestri fyrir rúmum þrjátíu árum að góð reynsla af peningum ríkisins sé engin trygging fyrir því að framtíðin sé björt. Sem dæmi um það sagði hann þessa sögu af af breska pundinu og þýska markinu.

Svo þótt menn geti ekki lengur neitað því að hugmyndir Keynes hafi glatað ört trúverðugleika sínum, spilla þær enn mjög fyrir voninni um skynsamlega peningastefnu. Fólk hefur heldur ekki gert sér grein fyrir, hve miklu óbætanlegu tjóni þær hafa þegar valdið, einkum í Bretlandi, þar sem þær komu fram. Það yfirbragð peningalegs áreiðanleika, sem eitt sinn mótaði peningastefnu þar í landi, hefur horfið skjótt. Frá því að vera öðrum fyrirmynd, er Bretland á fáum árum orðið mönnum víti til varnaðar. Nú fyrir skemmstu varð skondið atvik til þess að færa mér heim sanninn um þessa hningun: Í skrifborðsskúffu minni rakst ég á penný frá árinu 1863. Fyrir aðeins tólf árum – sem sé þegar það var hundrað ára – fékk ég það til baka af vagnstjóra í strætisvagni í Lundúnum. Síðan hafði ég pennýið meðferðis til Þýskalands til að sýna nemendum mínum hvað langtíma stöðugleiki í peningamálum þýddi. Ég held þeim hafi þótt mikið til koma, sem vænta mátti. En nú myndu þeir hlæja dátt ef ég nefndi Bretland sem dæmi um peningalegan stöðugleika.