Helgarsprokið 15. febrúar 2009

46. tbl. 13. árg.

F yrir skömmu átti Charles nokkur Darwin 200 ára afmæli. Eðlilega hefur margt verið rifjað upp um þróunarkenningu hans í fjölmiðlum – enda um einn merkasta vísindamann sögunnar að ræða – og hérlendis er ef til vill sérstaklega minnst á að Íslendingar hafa mesta trú á innihaldi hennar. Það er reyndar ekki mjög algengt meðal vestrænna þjóða að gera alvarlegar athugasemdir við hana, en þó hafa talsmenn svonefndrar Hönnunarkenningar haft horn í síðu Darwins. Um þau furðulegheit öll var ritað í þessum pistli hér fyrir nokkrum misserum.

Í umræddum pistli er minnst á skjaldbökuna Harriet. Blessað kvikindið dó drottni sínum sumarið 2006 í áströlskum dýragarði, þá í kringum 175 ára. Því hefur þráfaldlega verið haldið fram, að Darwin sjálfur hafi numið hana frá Galapagoseyjum, en það þykir vafasamt að selja þá frásögn yfir kaupverði. Þó svo skjaldbökur verði yfirleitt nokkuð aldraðar, þá ber flestum saman um að Harriet hefði tæpast lifað svona lengi nema vegna þess að hún átti aldrei í eiginlegri lífsbaráttu, svo sem gerist og gengur með sýningagripi dýragarða. Frítt fæði og húsnæði í tæplega tvær aldir drepur engan úr erfiðisvinnu og stressi, þó svo húsnæðið sem slíkt hefði svo sem alltaf fylgt með í kaupunum hjá Harriet eins og hjá skjaldbökum almennt.

„Bergmálið úr pottaglamri teboðsþegans góðkunna barst nýlega um sali Samfylkingarinnar, en þaðan bárust fyrir skemmstu fréttir af upprennandi stjörnu innan flokksins, Jóni B. Hannibalssyni, sem telur forystuna þurfa að axla ábyrgð, og vel komi til greina að hann bjóði fram krafta sína sem leiðtogi flokksins.“

Það kunna að fylgja því erfiðismunir og eitthvað stress að halda úti stjórnmálaflokkum. Hér á Fróni þótti það augljóslega þjóðráð að tækla það vandamál með þeim hætti að taka einfaldlega fjármuni skattgreiðenda og afhenda stjórnmálaflokkum. Reyndar einvörðungu þeim stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi, líkt og hver og einn getur kynnt sér í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka. Ekki þarf að hafa mörg orð um hvaða áhrif þetta hefur á pólitíska endurnýjun, sem mikið er fjallað um þessa dagana.

Einhverjum kann að þykja þetta ósvinna, þar eð hér er stjórnmálasamtökum breytt úr fjöldahreyfingu og félagasamtökum fólks með svipaðar stjórnmálaskoðanir í ríkisstofnanir. Einn stærsti munurinn liggur í því að frjáls félagasamtök komast eðlilega ekki undan því að taka mið af því sem er að gerjast meðal félagsmanna. Með sama hætti getur heyrn forystumanna stjórnmálaafla snarversnað þegar peningarnir í flokksstarfið flæða inn hvað sem tautar og raular.

Fyrsta greiðslan úr hendi skattgreiðenda af afgreidd samkvæmt fjárlögum 2007 og hljóðaði upp á kr. 310 milljónir. Næsta ár var þessi fjárhæð komin í kr. 371,5 milljónir. Þvert á væntingar þessa vefrits hækkaði þessi upphæð ekki í ár, en stóð engu að síður í stað. Þar með eru þessi framlög til stjórnmálasamtaka komin yfir milljarð á þremur árum.

Við þetta bætist svo hið bráðnauðsynlega starf aðstoðarmanna þingmanna – sem er lítið annað en ríkisvædd kosningasmölun. Hverjum væri missir af þessu, að þessum aðstoðarmönnum undanskildum?

Sennilega á öllum að vera ljóst að þörf er á verulegum niðurskurði ríkisútgjalda. Það verður vonandi til þess að þessi fráleitu ríkisframlög til stjórnmálasamtaka og aðstoðarmanna þingmanna heyri fljótt sögunni til. Stjórnmálasamtök hafa hvort eð er ekki gott af þeirri ofverndun sem þessi framlög skattgreiðanda veita þeim, ofvernd gegn gagnrýni úr eigin ranni sem og ofvernd gegn pólitískri endurnýjun almennt.

Vel á minnst. Bergmálið úr pottaglamri teboðsþegans góðkunna barst nýlega um sali Samfylkingarinnar, en þaðan bárust fyrir skemmstu fréttir af upprennandi stjörnu innan flokksins, Jóni B. Hannibalssyni, sem telur forystuna þurfa að axla ábyrgð, og vel komi til greina að hann bjóði fram krafta sína sem leiðtogi flokksins. Það verður fróðlegt að sjá hvort fréttastofa hins opinbera muni fylgjast með hverju skrefi í þessu máli sömuleiðis. Fréttastofan má gjarnan líka fylgjast vel með hver hin raunverulegri endurnýjun verður eftir kosningarnar innan þeirra flokka, sem komið hafa að landsstjórninni síðasta áratug eða svo. Annars svaraði núverandi formaður Samfylkingarinnar þessu upphlaupi Jóns þannig til, að Samfylkingin hafi axlað ábyrgð með því að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Mögnuð skýring. Sem formaðurinn var reyndar ekkert spurður nánar út í. Það má svo velta fyrir sér hvort Ingibjörg verði eitthvað spurð út í ábyrgð sína og Samfylkingarinnar ef sú staða kæmi upp eftir kosningar, ofan á allt annað, að hér ríkti stjórnarkreppa?

Og hvað gerist hér á landi ef tiltekið stjórnmálaafl hægra megin við miðju fær meira en 30% í næstu kosningum? Svo ekki sé nú minnst á ef sami flokkur færi í ríkisstjórn að loknum þeim kosningum? Mun sú ríkisstjórn, með glænýtt umboð, fá frið fyrir teboðsþeganum ef raddirnar í höfði hans segja honum að umboðið sé í raun ekki nógu gott, eða ef hann kemst að þeirri niðurstöðu að kosningarnar hafi í raun ekki verið neitt annað en pólitísk reykbomba? Færi hann í annað teboð til að fá línurnar lagðar? Mun hann halda áfram að láta teboðshaldarann að mestu óáreittan, og þá vini hans og kunningja sem hann hefur mært linnulítið í áraraðir?

Teboðshaldarinn er sem eins konar teflonískt efnafræðilegt undur. Líkt og allir vita liðsinnti Ólafur Ragnar útrásinni – og útrásarvíkingunum – og var óþreytandi til þeirra verka, enda seint vændur um leti. Margt af því sem hann lét frá sér fara í endalausum ræðuhöldum þessara ára hefðu víðast hvar nægt til að einhverjar Raddir krefðust þess að hann viki úr embætti. Svo bætist við uppnám sem orð hans valda í Þýskalandi fyrir aðeins fáeinum dögum.