Þ ingnefndir, sem hafa lagafrumvörp til meðferðar, gefa jafnan umsagnaraðilum tvær vikur hið stysta til að skila umsögnum. Lengri tíma geta menn fengið ef frumvörp eru mikilvæg eða viðamikil. Þegar á að breyta skipulagi Seðlabanka Íslands, á tímum þegar fumlaus vinnubrögð og traustvekjandi eru enn mikilvægari en oftast áður, ætlar viðskiptanefnd alþingis að gefa tvo sólarhringa. Seðlabankinn bað um lengri frest og var þá helginni bætt við, með öðrum orðum engum vinnudegi. Ríkissjónvarpið sagði frá þessu og spurning Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur til félaga síns þegar hún kynnti fréttina var að sjálfsögðu: „Björn, kom þessi beiðni Seðlabankans á óvart?“ Ekki orð um að það óvenjulega væri hjá meirihluta þingnefndarinnar sem virðist staðráðinn í að skeyta ekki um neitt í ákafa sínum við að keyra seðlabankafrumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur áfram, nei nei, fréttakonan vildi gefa til kynna að það væri óskin um að fá að vinna umsögn sem væri það óvenjulega. – Og þegar Jóhanna Vigdís afkynnti fréttina bætti hún við: „Og við fylgjumst að sjálfsögðu með hverju skrefi í þessu máli“.
- Eftir sýningu viðtals breska ríkissjónvarpsins við Geir Haarde í fyrrakvöld hafa menn eðlilega staldrað við að Geir hafi ekki talað perónulega við Gordon Brown eftir beitingu bresku hryðjuverkalaganna í október. Það má þó benda á, að það er raunar utanríkisráðherra sem fer með samskipti við erlend ríki. Enginn virðist samt spyrja að því hvort Össur Skarphéðinsson eða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem á þessum tíma fóru með utanríkisráðuneytið, hafi haft persónulegt samband við breska ráðamenn.Það hefðu átt að vera hæg heimatökin því Össur er félagi Browns og Darlings í breska Verkamannaflokknum og samfylkingarmenn hafa á undanförnum árum streymt til Bretlands fyrir kosningar til að bera út bæklinga fyrir systurflokkinn.
- Geir Haarde skrifaði starfsbróður sínum þegar bréf, og sendinefndir ríkjanna funduðu stíft á þessum tíma. Afstaða íslenskra stjórnvalda var Bretum vel ljós. Þetta hefði Geir að sjálfsögðu mátt láta koma fram í viðtalinu.
- Í kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var talað við konu sem var sögð birta reglulega kafla úr þáttum eða jafnvel heilu sjónvarpsþættina á bloggsíðu sinni. Ekki að það sé mál Vefþjóðviljans, en ætli þessi kona hafi einhvern tíma heyrt talað um höfundalög?
- Í dag eru tuttugu ár liðin frá því írönsk stjórnvöld hófu ofsóknir sínar á hendur Salman Rushdie. Það er ágætt tilefni til að minna á, að sú stórathyglisverða bók, Íslamistar og naívistar, fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar aðeins 1990 krónur heimsend innanlands. Algerlega nauðsynleg lesning fyrir alla þá sem hætt er við að láta undan fyrir hávaða í ofstækismönnum.