Föstudagur 13. febrúar 2009

44. tbl. 13. árg.

R agnheiður Ólafsdóttir teiknimiðill var að setjast á þing fyrir Frjálslynda flokkinn sem varamaður. Jómfrúrræða hennar gekk út á að skamma Sjálfstæðisflokkinn fyrir að gleyma sér í aukaatriðum í stjórnarandstöðunni, þegar mun stærri mál væru í voða. Næst þegar hún kvaddi sér hljóðs var það til að ræða um að margt benti til að það væru sólgos sem kveiktu skógareldana í Ástralíu.

  • Fjölmargir hafa lagt mikla áherslu á að hingað komi erlendir sérfræðingar til að segja landsmönnum hvað snúi upp og hvað niður eftir bankahrunið. Slíkum mönnum hefur eflaust þótt fróðlegt að heyra hvað sænski bankasérfræðingurinn, Mats Josefsson, hefði um málin að segja, en hann er formaður nefndar um endurreisn bankakerfisins og kynnti niðurstöður sínar á blaðamannafundi í fyrradag. Niðurstaða Josefsson var að ábyrgðin á því hvernig fór lægi ekki hjá ríkisstjórn, opinberum stofnunum eða endurskoðendum, þó ýmsir reyndu að koma ábyrgðinni þangað. Stjórnendur fyrirtækjanna bæru einfaldlega sjálfir ábyrgð á eigin ákvörðunum og hvernig komið væri. Aldrei þessu vant þótti álit að utan ekki mjög markvert. Fréttin var sú sjöunda í röðinni hjá Ríkissjónvarpinu og náði ekki í yfirlitið. Þangað komst hins vegar matarúthlutun í New York og hreindýrskálfur austur á Héraði.
     
  • Öllum fréttamönnum finnst sjálfsagt að Jóhanna Sigurðardóttir þurfi ekki að svara neinu af því sem kom fram í svarbréfi seðlabankastjóra til hennar. Jóhanna sagðist einfaldlega ekki ætla að „elta ólar“ við bréfið, og þá er einskis frekar spurt og fréttamenn þakka brosandi fyrir sig. Ætli einhverjir aðrir forsætisráðherrar hefðu verið sakaðir um, ja til dæmis hroka, við slík „svör“?
     
  • Fáum fréttamönnum þykir áhugavert að rýna í álit alþjóðagjaldeyrissjóðsins á ástandi íslenskra efnahagsmála, sem birt var í gær. Kemur þar í ljós að alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur betur ganga en hann hafði búist við, krónunni hafi vegnað vel, inngrip Seðlabankans hafi verið skynsamleg og svo framvegis. Er skýrslan í raun mikið lof um peningamálastjórn Seðlabankans síðustu mánuði, en það er auðvitað ekki skýringin á áhugaleysi fréttamanna og álitsgjafa á skýrslunni.