Mánudagur 16. febrúar 2009

47. tbl. 13. árg.

E iríkur Tómasson prófessor var ákafur í fréttum í fyrradag og vildi alls ekki að beðið yrði í nokkra mánuði með að efna til „stjórnlagaþings“ og breyta stjórnarskránni. Skýringin á því að ekki mætti bíða var sú, að ef málið drægist í nokkra mánuði þá myndi áhuginn á málinu dvína. Málið er með öðrum orðum ekki mikilvægara en svo að það er knúið áfram af einhverjum stundaráhuga. Og auðvitað ekki, stjórnarskráin kemur efnahagsvandræðum ekkert við og ekkert sem kallar á mikla endurskoðun hennar núna; hvað þá á tímum þegar daglegir hagsmunir atvinnulífsins ættu að vera í forgrunni fremur en endurvinnsla gamalla pólitískra vonbrigða og reikningsuppgjöra.

  • Um helgina var slegið upp þeim fréttum að Jón Baldvin Hannibalsson hefði áhuga á endurkomu í forystu krata. Það er því enginn skortur á stórtíðindum og næst kemur kannski að Bjarni Felixson styðji KR, Egill Helgason sé á móti Davíð Oddssyni eða Björn Bjarnason hlynntur NATO.
     
  • Raunar var í fyrsta skipti í langan tíma nokkur frétt í orðum Jóns Baldvins, því hingað til hefur hann látið nægja að segjast vera tilbúinn að hugleiða endurkomu „ef eftir því er leitað“. Í öll þau skipti hefur sú yfirlýsing vakið mikla eftirvæntingu í röðum Kristjáns Más Unnarssonar fréttamanns, en aðrir hafa ekki látið sig málið varða. Nú hins vegar boðaði Jón framboð hvort sem eftir því yrði leitað eða ekki, og er það vissulega heldur fréttnæmara en fyrri yfirlýsingar.
     
  • Stöð 2 tókst að gera mest úr þeim hluta ræðu Jóns Baldvins í gær, sem fjallaði um árásir hans á Sjálfstæðisflokkinn. En það, að fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins sé andstæðingur Sjálfstæðisflokksins, var hins vegar engin frétt.
     
  • Loksins var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir spurð í fyrrakvöld um það hvernig Samfylkingin hefði „axlað ábyrgð“. Formaður Samfylkingarinnar taldi flokkinn hafa „axlað ábyrgð“ á ríkisstjórnarþátttöku sinni með því að rjúfa ríkisstjórnarsamstarfið. Og fréttamenn spurðu einskis frekar. Samfylkingin „axlar ábyrgð“ með því að fleygja höfuðandstæðingi sínum úr ríkisstjórn, taka sjálf við forsætisráðuneytinu og hefja þegar í stað aðgerðir gegn fyrrverandi leiðtoga þessa höfuðandstæðings. Össur Skarphéðinsson, sem fór fyrir Samfylkingunni þegar bankarnir komust í þrot og viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru ákveðin, hann var hækkaður í tign og gerður að utanríkisráðherra. Svona fer Samfylkingin að þegar hún „axlar ábyrgð“. Hvernig hegðar hún sér á öðrum tímum?
     
  • Ef að það var í raun svo, að þeir sem sátu í ríkisstjórn þegar bankarnir komust í þrot, hafi átt að hverfa úr stjórnarráðinu fyrir kosningar, þá var eina vitið að mynduð yrði bráðabirgðaminnihlutastjórn annarra flokka, en ekki að annar stjórnarflokkanna tæki við forsætisráðuneytinu. Nú er það raunar mjög hæpin hugmynd að það hafi verið rétt að efna til stjórnarskipta tveimur og hálfum mánuði fyrir kosningar, en úr því að það var niðurstaðan, og úr því að Samfylkingin talar eins og ríkisstjórnin hafi þurft að „axla ábyrgð“, þá er með ólíkindum að annar stjórnarflokkurinn sitji enn við völd og það mun meiri völd en áður. Og engar athugasemdir gera fréttamenn og álitsgjafar.
     
  • Enn má spyrja: Allir þingmennirnir og álitsgjafarnir sem sögðu að þingmenn hefðu misst umboð sitt við bankahrunið og því yrði að kjósa strax og veita þingmönnum „nýtt umboð“ – hvers vegna gera þeir engar athugasemdir við að „umboðslausu“ þingmennirnir sitja nú og ætla að umturna eins miklu og þeir geta á örfáum vikum, fyrir kosningar. Hvar fengu þeir umboð til þess án kosninga, geta vinstrigrænu þingmennirnir og rauðbleiku álitsgjafarnir svarað því?
     
  • Nú þinga stjórnvöld borgar og ríkis um hvað gera skuli við byrjunina á tónlistarhúsinu. Enn sem komið er tala þau eins og lokið verði við bygginguna fyrir almannafé sem ekki er til. En, nú þarf að spara á öllum sviðum svo blóðugur niðurskurðarhnífurinn lendir líka á tónlistarhúsinu, og er svo komið að upp er komin sú skelfilega hugmynd að „sleppa gestaherbergjum eða viðhafnaraðstöðu fyrir heldri gesti“ líkt og kom fram í Fréttablaðinu á laugardaginn. Kostaður við að ljúka húsinu hrapar við það úr tólf milljörðum króna í ellefu komma níufimm milljarða. Fær ekkert að vera í friði fyrir nýfrjálshyggjunni?