Þriðjudagur 3. febrúar 2009

34. tbl. 13. árg.

S tjórnarflokkarnir hafa 27 þingmenn. Sjálfstæðisflokkur og Frjálslyndir hafa 29. Svo eru 7 framsóknarmenn sem hafa lofað að verja minni hópinn vantrausti en lofa engu um annað. Í skjóli þessa ætlar 80 daga ríkisstjórn að fara um með eldi og brennisteini fram að kosningum. Það að á gerbreyta stjórnarskránni. Það á að bylta kosningalögum. Það á að reka alla þá menn sem forysta Samfylkingarinnar telur sig í skuld við. Það á að gera eins mikið og hægt er, eftir eins litla umhugsun og hægt er, á örfáum dögum.

  • Er það þetta sem Framsóknarflokkurinn ákveður að leggja nafn sitt við, sem sérstakan lið í endurreisn sinni?
     
  • Umhverfisráðherra vinstrigrænna sendir þau boð í allar áttir að ekkert álver verði reist á Bakka. Áttatíudaga-ráðherrann, sem situr í skjóli Framsóknarflokksins, veit vel hvaða áhrif þessi skýru skilaboð frá ráðherra umhverfismála hefur á erlenda fjárfesta og hversu þetta eykur líkurnar á því að þeir líti annað en til Íslands. En hikar ekki, enda veit hún að Framsóknarflokkurinn breytti sér nýlega í stimpilpúða.
     
  • Hvað á það eiginlega að þýða að ætla að gerbreyta stjórnarskránni í fullkomnu óðagoti, þegar menn eru enn að ná áttum eftir þrot bankanna þriggja? Stjórnarskrá hvers ríkis eru grundvallarlög þess, reglur sem eiga að mótast á löngum tíma og vera breytt sárasjaldan og þá eftir vandlega yfirlegu og af brýnni nauðsyn. Hér tala menn skyndilega eins og stjórnarskráin eigi að geta breyst eins hratt og veðurspár og afstaða vinstrigrænna til alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
     
  • Lög um réttindi og skyldur – aðallega réttindi þó – starfsmanna ríkisins frá árinu 1996 kveða á um það hvernig taka megi á því ef embættismenn brjóta af sér í störfum sínum eða vinna sér á annan hátt til óhelgi. Ef að ráðherra treystir sér ekki til að neyta þeirra úrræða sem lögin bjóða, heldur biður embættismanninn um að segja upp, er það þá ekki eins skýr yfirlýsing og hægt er að gefa, um að embættismaðurinn hafi einfaldlega ekkert gert sem heimili beitingu þeirra úrræða sem starfsmannalögin geyma? Að starfsmaðurinn hafi einfaldlega sinnt starfi sínu samkvæmt lögum og reglum? Ætli einhver, sem ekki er fréttamaður, skilji ekki þetta samhengi?