Fimmtudagur 25. desember 2008

360. tbl. 12. árg.
Ef Ísland á ekki heima með evrópuþjóðum innan Evrópusambandsins að þínu mati hvar á Ísland þá heima í alþjóðasamfélaginu ef litið er til efnahagslegra, menningarlegra, pólitískra og stjórnskipulegra þátta ?
– Spurt á fundi einnar af Evrópunefndum Sjálfstæðisflokksins 22. desember 2008.

S purningunni hér að ofan var beint til Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem var einn af gestum fundarins í Valhöll. Vefþjóðviljinn hefur svör Björns ekki á takteinum enda er það spurningin sjálf sem er klassík og mikilvægt sýnishorn um hugarheim forræðishyggjunnar. Hún skýrir svo vel þá nauðhyggju og trú á miðstýringu sem einkennir marga ESB-sinna.

Þeir virðast trúa því að það sé söguleg nauðsyn að Ísland verði hluti af ESB. Það sé sögulegt hlutverk Íslands eins og stykkis í púsluspili sem oltið hefur ofan á gólf og bíður þess að einhver seilist eftir því og setji á réttan stað. Í því felst nauðhyggjan. Forsjárhyggjan og miðstýringaráráttan birtist svo í kröfunni um að stjórnvöld ákveði hvaða tengsl Íslendingar hafi við aðra íbúa heimsins. Við hverja eiga Íslendingar að stunda viðskipti spyrja menn dómsmálaráðherra Íslendinga, svona eins og það sé eðlilegur þáttur í starfi stjórnvalda að stýra viðskiptum við önnur lönd. Hver eiga menningarleg samskipti Íslendinga að vera við fólk í öðrum löndum er ráðherrann sömuleiðis spurður, líkt og öll menning fari fram í ríkisstofnunum og það eigi að vera ákvörðun stjórnvalda yfir hvaða landamæri menningarstraumar berast.

ESB-sinnar eru mótaðir af þeim þankagangi skrifræðisins í Brussel að taka eigi allar ákvarðanir af miðstýrðu stjórnvaldi í stað þess að leyfa einstaklingunum hindrunarlaus samskipti yfir stræti, héruð, lönd og álfur.

Eru ríkustu lönd Evrópu, Sviss og Noregur, heimilislaus vegna þess að þau eru ekki í ESB? Voru Svíþjóð og Austurríki heimilislaus ríki áður en þau gengu í ESB? Var Ísland heimilislaust áður en ESB var stofnað og myndi aldrei finna sér heimili ef ESB liðaðist nú í sundur?

Þessi spurning um heimilisleysi Íslands verður svo enn hjákátlegri í því ljósi að hingað á hjara veraldar hefur á undanförnum árum flutt ótrúlega margt fólk til að að búa sér heimili. Þarf frekari vitna við um stöðu heimilisins Íslands en að heimilum einstaklinganna hefur fjölgað?

Íslendingar eiga að halda áfram að opna landamæri sín eins og langtímaþróunin hefur verið undanfarna hálfa öld. Það væri skref aftur á bak að loka landið inni í tollabandalögum og miðstýrðum og ólýðræðislegum yfirþjóðlegum stofnunum.

Ísland á heima í alþjóðasamfélaginu. Punktur.