Miðvikudagur 24. desember 2008

359. tbl. 12. árg.

Í dag er aðfangadagur jóla og um allan heim fagna kristnir menn nú annarri mestu hátíð ársins. Ekki er að efa að margir þeirra, og annarra, nota slíka hátíðisdaga með öðru til að hugleiða hvaða lífsgildi þeim þykja mestu skipta. Og slíkar hugleiðingar geta einnig borist inn á stjórnmálasviðið, hvaða gildi þykir mönnum mest um vert að þar séu höfð í heiðri.

Frelsi einstaklingsins til orða og athafna, segja vitaskuld margir, og eiga sér nokkurn bandamann í Vefþjóðviljanum. En það eru fleiri gildi sem menn bera fyrir brjósti og óhætt er að hugleiða. Jöfnuður, er eitt sem ýmsir myndu nefna sem dæmi um gildi sem meira mætti gera úr.

En hvað er átt við með jöfnuði og hvernig á að berjast fyrir honum? Er átt við þann jöfnuð að allir eigi jafnt, beri jafnt úr býtum og standi jafnt að vígi? Hvernig ættu menn að vinna að slíkum jöfnuði? Sumir vilja í fullri alvöru að tekjur allra verði jafnar, hvaða starf sem menn vinna, hversu margir eru færir um það, hversu vel menn geta innt það af hendi og svo framvegis og svo framvegis. Slíkum baráttumönnum þykir engu skipta þó með þessum „jöfnuði“ hyrfi hvati mjög margra til þess að komast áfram. Aðrir segja að allir eigi að hafa sömu tækifæri, sem hljómar vissulega betur, að minnsta kosti fyrst í stað. En hvernig ættu menn að ná því fram, nema með þeim eina mögulega samnefnara að enginn eigi nein tækifæri? Það er engin önnur leið til að ná fram markmiði um að allir eigi sömu möguleika á því að ná langt í listum, íþróttum, verkfræði og trésmíðum eða annars staðar; þar ráða hæfileikar hvers og eins allt of miklu.

Eiga starfsmenn sem vinna sama starf að fá sömu laun? Hvers vegna eiga þeir það? Ef báðir fá það sem þeir semja um, er þá eitthvað að því að annar geri betri samning en hinn? Eiga öll kjör að vera eins hjá ólíkum starfsstéttum? Orlof, fæðispeningar, eftirlaun, veikindaréttur, uppsagnarfrestur og svo framvegis, verður það að vera eins hjá ólíkum hópum? Og hvers vegna er það, ef önnur kjör eins og laun mega vera ólík?

Einn jöfnuður er það sem menn geta náð. Að menn séu jafnir fyrir lögum og þau gildi jafnt um ríka, fátæka og allan fjöldann þar á milli. Að hið opinbera sjái borgarana sem mest í friði og leyfi hverjum og einum að leita hamingjunnar þar sem hann telur sína vera að finna. Að þau fáu mál sem hið opinbera ráði til lykta séu endanlega ákveðin af lýðræðislega kjörnum mönnum en ekki ókosnum „sérfræðingum“, og borgararnir hafi jafna möguleika á því að ráða því hverjir fari með völd á hverjum tíma. Að það séu lýðræðislega kosnir menn en ekki aðrir sem stjórni opinberum málum. Um leið og frekir menn eða ofstopafullir ná að taka völdin af lýðræðislega kjörnum fulltrúum er úti um jöfnuð fjöldans en við tekur hnefaréttur þeirra fáu.

Að þessu sögðu óskar Vefþjóðviljinn lesendum sínum öllum gleðilegra jóla.