Föstudagur 26. desember 2008

361. tbl. 12. árg.

A ð loknum fjölskylduboðum kvöldsins verður næsta jólaverkefni margra að fara í bókaverslun og skipta fengnum hlut. Sumir hafa fengið tvö eintök af bók, aðrir jafnvel fengið eintak af bókinni Sagað af forseta, og eiga því erindi í bókabúð. En hvað eiga menn að velja, nú þegar þeir geta sjálfir valið sér jólabók? Á Vefþjóðviljinn að vekja athygli á örfáum ólíkum bókum, sem kynnu að vera jafnvel áhugaverðari en margar þeirra sem meira fór fyrir í auglýsingatímum síðustu vikna?

Áhugamönnum um skemmtilegar skáldsögur má benda á bókina Litla stúlkan og sígarettan, sem bókaforlagið Skrudda gefur út eftir Frakkann Benoît Duteurtre. Sagan gerist í nálægu framtíðarlandi, þar sem „fagmenn“ og „sérfræðingar“ hafa náð jafnvel enn meiri yfirráðum yfir lífi fólks en nú, og skipta sér óspart af daglegu lífi. Bókin er skemmtilega skrifuð og gerir hvort tveggja í senn, skemmtir og vekur til umhugsunar um óverðskuldaða sérfræðingadýrkun og lýðheilsuofstopa.

Önnur framtíðarskáldsaga kom til tals í Vefþjóðviljanum fyrir skömmu. Í Váfugli Halls Hallssonar, er Ísland komið í Evrópusambandið sem hefur þróast eins og búast má við, í yfirþjóðlegt stórríki og íslenska lýðveldið hefur verið aflagt. Þar er á ferð tilvalin bók fyrir þá sem vilja velta fyrir sér hvaða þróun kann að bíða Íslands á næstu áratugum og hvort slík þróun væri eftirsóknarverð.

Tvær bækur sem vel hafa selst í Bóksölu Andríkis að undanförnu, Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt og Þjóð í hafti eftir Jakob F. Ásgeirsson, fást vitanlega einnig í efniskenndum bókaverslunum. Óhætt er að mæla með þessum bókum báðum fyrir alla þá sem vilja hafa meira en nasasjón af því sem máli skiptir í efnahagsumræðunni.

Af allt öðrum toga er bókin Dýrmætast er frelsið, sem segir frá þróun og stöðu innflytjendamála á Norðurlöndum, einkum í Noregi. Hvaða vandamál hafa komið upp, hvernig er best að berjast við þau og, ekki síst, hvaða ógnir steðja að innflytjendum frá öfgamönnum úr þeirra eigin hópi? Saklausum innflytjendum stendur oft mikil ógn af öfgamönnum úr eigin röðum, mönnum sem vilja stjórna lífi samlanda sinna og trúbræðra, og oft horfa yfirvöld landsins aðgerðalaus á mikla kúgun. Dýrmætast er frelsið er hugsuð til að opna augu fólks fyrir þessu.