Föstudagur 28. nóvember 2008

333. tbl. 12. árg.

A lþingi hefur samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að Ísland sé lokað sósíalískt ríki. Seðlabanki Íslands hefur gefið út reglur hins vísindalega sósíalisma. Alþingi, ríkisstjórn og seðlabankinn hafa þar með lýst fullkomnu vantrausti á gjaldmiðil ríkisins og verðmætasköpunina í landinu.

Hver á að treysta þeim sem treystir sér ekki sjálfur?

Á dögunum varð sá heldur óhugnanlegi atburður að þrír unglingar í Keflavík gengu í skrokk á þeim fjórða, börðu hann niður og spörkuðu margsinnis í hann liggjandi. Þetta tóku þeir upp á myndband sem sýnt var á netinu og barst hratt um. Í framhaldinu voru nöfn þeirra birt opinberlega.

Hvað gerðist næst? Næstu daga var umsátur um heimili saklausrar fjölskyldu í Keflavík. Hótanir bárust víða að, fjöldi fólks sat um húsið og lögregla handtók grímuklædda menn sem voru komnir upp á þak, í leit að unglingi heimilisins. Múgurinn fór mannavillt. Unglingurinn á heimilinu var óvart alls ekki einn af ofbeldismönnunum.

Keflavík er ekki ýkja fjölmennur bær. Myndir af ofbeldismönnunum höfðu verið spilaðar í flestum tölvum. Mennirnir voru nafngreindir. Samt fór fólk og sat um blásaklausan mann. Hótanir dundu á fjölskyldunni dag og nótt. Það var reiði í samfélaginu.

Svo halda menn að hrópandi fólk á torgum sé alveg búið að komast að því hverjir hafa mest á samviskunni vegna hruns bankanna. Svona gekk það í Keflavík og þar fór fólk villt vegar alveg hjálparlaust. Þar var ekki búið að beita fjölmiðlum, pistlahöfundum, manískum blogurum og hrópandi ræðumönnum mánuðum saman til að hafa áhrif á umræðuna. Hvernig ætli göturéttlætinu tækist upp við þær aðstæður?

Sumir telja að nú þoli alþingiskosningar enga bið. Alls ekki megi bíða eftir því að málin verði rannsökuð eða komist verði yfir mestu erfiðleikana. Nei, það verði að kjósa strax, áður en nokkuð verði kannað og á meðan göturéttlætið eitt kemst að.

Í vikunni var haldinn baráttufundur í Háskólabíói. Meðal ræðumanna var prófessorinn hressi, Þorvaldur Gylfason, sem af fréttum að dæma virðist hafa komið á óvart, farið ótroðnar slóðir og haldið splunkunýjan fyrirlestur um einn af bankastjórum seðlabankans. Virðist hann hafa ákveðið að gæta þess að koma fram eins og fræðimaður en ekki lýðskrumari, og er haft eftir honum að bankastjórinn hefði ofan á aðra illmennsku gætt þess að fara ekki í seðlabankann fyrr en hann hefði útbúið mikil eftirlaun handa sjálfum sér. Nú þarf ekki að efast um viðtökurnar sem þessi óvænti málflutningur hins hófsama prófessors hefur fengið á fundinum, en af því að Vefþjóðviljinn var þar ekki vill blaðið spyrja þá sem fróðari eru, hvort prófessorinn hafi ekki örugglega, sá sanngjarni fræðimaður sem hann er, tekið fram að þessi vondi seðlabankastjóri, sem hefur haft fullan rétt á eftirlaunum alveg síðan hann hætti í stjórnmálum, hafi að vísu aldrei þegið krónu í eftirlaun.

Þeir, sem dag eftir dag æpa að þessi vondi seðlabankastjóri hafi einn og sér sett eftirlaunalög fyrir sjálfan sig, taka þeir ekki örugglega fram, það sem upplýst var fyrir nokkru, að þessi bankastjóri sleppi því reyndar í hverjum mánuði að taka við þeim eftirlaunum sem hann er þó skammaður fyrir á hverjum degi?

Næst þegar Þorvaldur Gylfason skilar einni af sínum skemmtilegu greinum til birtingar á leiðarasíðu Fréttablaðsins, þá kannski stingur hann upp á því við ritstjóra blaðsins að þeir geri stutta úttekt á því hvaða fyrrverandi ráðherrar það eru sem þiggja eftirlaun ofan á önnur laun, og hvaða fyrrverandi ráðherrar neiti sér um það.