Laugardagur 29. nóvember 2008

334. tbl. 12. árg.

H inn fróði dálkahöfundur Óðinn á Viðskiptablaðinu spyr að því í pistli sínum í gær hvers vegna Straumur lifi enn, einn stóru bankanna. Óðinn segir það sérlega áhugavert því fyrirfram hefðu margir talið Straum í mestri hættu. Annað hafi komið á daginn.

Óðinn hefur velt því fyrir sér hvernig á því stendur að Straumur lifði af en hinir dóu. Ýmsir höfðu jafnvel fullyrt svo Óðinn heyrði að Straumur væri í mestri hættu og ekki væri við því að búast að hann hefði fjármálakreppuna af. Og raunar mun staða Straums hafa verið afar viðkvæm í byrjun október þegar hinir bankarnir fóru einn af öðrum. Bankinn mun hafa verið stutt frá því að elta hina inn í Fjármálaeftirlitið viku eftir að Kaupþing féll. En undir lok vikunnar sem Kaupþing féll breyttust aðstæður á erlendum fjármálamörkuðum til hins betra og Óðinn hefur heyrt því fleygt að það hafi ráðið úrslitum fyrir Straum. Líklegt má telja að þessa daga hafi einmitt nokkrir dagar, jafnvel einn eða tveir, ráðið úrslitum um það hvort að bankar lifðu eða dóu.

Af umræðu undanfarinna vikna hefur mátt draga þá ályktun að bankarnir þrír hafi lagt upp laupana vegna græðgi, spillingar og glæpsamlegrar hegðunar stjórnenda þeirra. Og af engu öðru. Umræðan hefur öll verið á þann veg að ekkert hefði getað orðið þeim til bjargar. Vilhjálmur Bjarnason formaður félags fjárfesta sagði til að mynda: „Íslenskt fjármálakerfi var fórnarlamb siðblindu, siðvillu og geðvillu.“ Vilhjálmur átti þó hlutafé í bönkunum og er það nokkuð sérstakt að maður festi fé í siðvillu og geðvillu.

Eins og Óðinn rekur þá var ef til vill ekki allur munur í veröldinni á því hvort bankar lifðu lausafjárkreppuna af. Það átti bæði við um Ísland og önnur lönd. Þar gátu nokkrir dagar til eða frá ráðið úrslitum. Það má til að mynda velta því fyrir sér hver hefðu orðið örlög Kaupþings án hinna harkalegu aðgerða breskra stjórnvalda.

Hér er auðvitað ekki verið að segja að stjórnendur íslensku bankanna hafi ekki gert mistök. Um það er varla hægt að deila þegar þeir eru komnir í þrot. Það er bara verið að benda á að stundum er skammt á milli feigs og ófeigs í rekstri fyrirtækja.