Fimmtudagur 27. nóvember 2008

332. tbl. 12. árg.

E va Hauksdóttir „aðgerðasinni“ var ein þeirra sem braust inn á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík á laugardaginn. Henni og félögum hennar tókst að brjóta sér leið inn um fremri dyr hússins og gerðu tilraun til að brjóta innri dyrnar niður með því að láta stóran trédrumb dynja á þeim. Hópurinn var með öðrum orðum búinn að brjótast inn í anddyri lögreglustöðvarinnar og ætlaði sér augljóslega lengra. Þá var piparúða sprautað yfir hópinn og hann leystist upp.

Eva og Stefán Eiríksson lögreglustjóri ræddu þetta mál í Kastljósi Ríkissjónvarpsins á mánudagskvöldið. Stefán sagði að hópurinn hefði verið varaður við og hvattur til að fara úr anddyrinu áður en úðað var á hann.

Eva: Mér finnst það afar ótrúlegt að það hafi verið gefin út viðvörun sem ég heyrði ekki því ég var þarna eiginlega alveg fremst. Ég hreinlega trúi því ekki að það hafi verið gefin út aðvörun. Er ekki til gjallarhorn á lögreglustöðinni? Eru ekki til neinar græjur?

Stefán: Jú það var til gjallarhorn og þegar menn komu með það út til þess að ræða við hópinn þá var ráðist á manninn með gjallarhornið og það eyðilagt þannig að það var ekki líklegt til að ná árangri.

Þarna var fólk sem búið var að brjóta sér leið inn í hús. Þegar inn var komið hélt það áfram að vinna skemmdarverk á húsnæðinu. Ætla mætti að lágkúran væri þar með orðin alger. En, nei, nei. Fulltrúi hópsins mætir æstur og sármóðgaður í sjónvarpssal tveimur dögum síðar og kvartar yfir framkomu húsráðandans.

Fólkið er jafnvel svo skyni skroppið að það kvartar yfir því að fá heyra ekki það í sérstöku gjallarhorni að skemmdarverkin verði ekki liðin og stuggað verði við því, gjallarhorni sem það eyðilagði sjálft um leið og reynt var að nota það. Eru ekki til neinar græjur?

Það er mikið rætt um spillingu í landinu þessi misserin. Blog, blaðagreinar og mótmælaspjöld snúast um spillinguna. Hópurinn sem braust inn í lögreglustöðina þarf ekki að bloga eða bera slík spjöld til að minna menn á spillingu.