Laugardagur 22. nóvember 2008

327. tbl. 12. árg.

F jölmiðlar hafa jafnan mikinn áhuga á fjármálum stjórnmálamanna. Hingað til hefur áhuginn að mestu verið bundinn við tekjur og eignir þótt fjölmiðlum hafi margsinnis verið bent á að það kunni að vera áhugaverðara hverjum stjórnmálamenn skulda, eru skuldbundnir. Að minnsta kosti segi eigna- og tekjuhliðin ekki nema hálfa söguna. En í síðustu viku fengu einhverjir fjölmiðlar skyndilega áhuga á skuldum alþingismanna. Leiddi hann í ljós að nokkrir þingmenn hafa á undanförnum árum fjármagnað húsnæðiskaup sín með lánum í erlendri mynt.

Flestir þessara myntkörfuþingmanna eru úr Samfylkingunni, þar af tveir ráðherrar.

Þeir hafa eins og aðrir félagar þeirra í Samfylkingunni talað tæpitungulaust um það undanfarin ár að íslenska krónan sé handónýtur gjaldmiðill.

Engu að síður ákváðu þessir þingmenn Samfylkingarinnar að setja allt traust sitt á krónuna með því að fjármagna kaup á innlendum eignum með erlendum lánum. Það er eiginlega ekki hægt að sýna gjaldmiðli lands meiri virðingu og traust en að taka erlend lán til að kaupa lóðarskika í landi gjaldmiðilsins og byggja hús á honum. Þeir sem kaupa tæki og tól fyrir erlent lánsfé eiga þó þann kost að selja dótið aftur úr landi fyrir erlenda mynt en lóð og hús verða varla flutt úr landi.