Föstudagur 21. nóvember 2008

326. tbl. 12. árg.

S eðlabankastjóri hélt ræðu á dögunum og svaraði þar gagnrýni sem beint hafði verið að bankanum. Síðan hafa menn farið mikinn í fjölmiðlum og álitsgjöf. Að vísu ekki endilega til að hrekja neitt af því sem fram kom í ræðunni, en hafa þá í staðinn kvartað yfir því að bankinn hafi ekki tekið undir með álitsgjöfunum og kennt sér um það sem miður hefði farið hjá viðskiptabönkunum.

Stjórnmálamenn af vissum væng hafa í nokkur ár haft margt að segja um seðlabankann. Nú er textinn frá þeim að bankinn verði að njóta trausts. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í fyrrakvöld að það væri misskilningur ef fólk héldi að formaður bankastjórnar seðlabankans hefði staðið sig illa í starfi. Það væri alls ekki málið, það væri bara þetta með traustið.

Seðlabankakenningar þessara afla má í stuttu máli draga saman svo:

Það er heimilt að gagnrýna seðlabankann linnulaust. Snúa út úr orðum hans, kenna honum um hvað sem aflaga fer og gagnrýna hann harðlega. Þetta er sjálfsagt að gera dag eftir dag, mánuð eftir mánuð. Slá allri gagnrýni á bankann upp sem stórfrétt.
Hins vegar má seðlabankinn alls ekki segja almenningi ef hann telur gagnrýnina ekki á rökum reista.
Hvers vegna ekki? Jú af því að bankinn verður að njóta trausts.

Þeir sem svo tala, hvað hafa þeir gert undanfarin ár til þess að seðlabanki Íslands njóti trausts? Kannski það sama og þeir hafa gert til þess að sá gjaldmiðill, sem íslenska ríkið gefur út, haldi gildi sínu. Hafa þeir einhvern tíma sagt eitt einasta orð til þess að auka það traust sem þeir telja nauðsynlegt að ríki?